Fréttaskýring: Skuldir lækka til sjávar og sveita

Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samband íslenskra sveitarfélaga fagna dómum Hæstaréttar …
Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samband íslenskra sveitarfélaga fagna dómum Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dómar Hæstaréttar í málum Lýsingar og SP fjármögnunar, þar sem gengistrygging lána var dæmd ólögmæt, kunna að hafa mikil áhrif á skuldastöðu sjávarútvegsfyrirtækja og sveitarfélaga.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir ekki hægt að fullyrða um neitt fyrr en víst er hvernig unnið verður úr dómum Hæstaréttar en ef ákveðið verður að láta vaxtaprósentu lánanna standa óbreytta kunna gengistryggðar skuldir sveitarfélaga að lækka um 70-80%.

„Það er hins vegar spurning ef þetta er bara leiðrétt í verðtryggt lán með íslenskum vöxtum, þá borgum við mun hærri vexti. Þá hefur lengd lánsins mikið að segja um hversu hagstætt þetta er. Í styttri lánum held ég að þetta komi betur út. Ef þetta er til lengri tíma þá er ég ekki endilega viss um það. Það fer eftir því hversu mikill vaxtamunur verður ákveðinn og hvernig krónan styrkist á næstu tveim til fjórum árum. Ef lánið er kannski til fimmtán ára þá gæti sveitarfélagið orðið af hagnaðinum vegna vaxtamunarins, því þeir eru hagstæðari á gengistryggðum lánum, og með lánalækkun í kjölfar styrkingar krónunnar,“ segir Halldór sem kveður Samband íslenskra sveitarfélaga beita sér í umræðunni um leiðréttingu lánanna.

Miklir hagsmunir í húfi

Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna, lítur svo á að ekki eigi að beita 18. grein laga um vexti og verðtryggingu við leiðréttingu lánanna en hún kveður á um að beita skuli lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabankans við endurútreikning lánanna. Hann telur samningana kveða á um vaxtakjörin og að þeir skuli standa óbreyttir fyrir utan gengistrygginguna sem dæmd var ólögmæt.

„Það er engin spurning að þetta mun hafa mikil áhrif á sjávarútvegsfyrirtækin. Það eru viss fyrirtæki sem tóku lán og fengu greidda erlenda mynt, dómurinn tekur ekki til þeirra. Ég veit ekki hvernig hlutfall skulda sjávarútvegsfyrirtækja skiptist nákvæmlega en ég er sannfærður um að þetta hefur veruleg áhrif á sjávarútveginn,“ segir Friðrik.

Lítil áhrif á skuldirnar

Birgir Björn Sigurjónsson, fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, kveður skuldsetningu borgarinnar að mestu leyti í erlendri mynt en ekki í formi gengistryggðra lána. Dómar Hæstaréttar hafa þannig lítil sem engin áhrif á skuldastöðu borgarinnar. „Það hefur almennt ekki verið neitt mikið um gengistryggð lán hjá okkur. Það verður að athuga það að borgin og fyrirtæki eins og Orkuveitan hafa bara sjálf verið á erlendum lánamarkaði.

Langtímaskuldir Reykjavíkurborgar í árslok eru 13,9 milljarðar. 4,2 þar af eru í erlendum gjaldmiðlum. Þetta eru langtímaskuldir við erlendar lánastofnanir. Þessir dómar hafa engin áhrif á það,“ segir Birgir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert