Taka stöðu gegn almenningi

Gengislánin eru nú í brennidepli.
Gengislánin eru nú í brennidepli. Friðrik Tryggvason

„Þetta er áframhald á gamla Íslandi þar sem ríkisvaldið og fjármálastofnanir taka sameiginlega stöðu gegn almenningi í landinu. Það er ekkert öðruvísi,“ segir Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, um hvernig honum finnist viðbrögð stjórnarinnar við gengisdómnum ríma við kröfuna um „nýja Ísland“.

Eins og fréttavefur Morgunblaðsins hefur greint frá er Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra þeirrar skoðunar að óraunhæft sé að verða við ítrustu kröfum þeirra sem tóku gengislán og horfa nú til niðurstöðu Hæstaréttar í þessum efnum.

Blekkingarleikur ráðherra 

En hvaða skoðun hefur Þór á því sjónarmiði Gylfa að ef þessi leið verði farin muni skattgreiðendur á endanum þurfa að greiða fyrir hana?

„Það er ekki rétt hjá honum. Það er tóm blekking. Hvers vegna ættu skattgreiðendur að borga fyrir hana. Það hefur komið fram á nefndarfundum að þessi leið geti orðið dýr og að hún muni hugsanlega setja fjármögnunarfyrirtækin á hausinn nema eigendur þeirra leggi fram meira eiginfé. Og hún mun hugsanlega setja einn banka á hausinn nema eigendur hans leggi fram meira eiginfé,“ segir Þór sem vísar til setu sinnar í efnahags- og skattanefnd.

„Þannig að það er ekkert í spilunum sem segir að þessi leið muni verða skattborgurum dýr. Hún getur hugsanlega orðið það ef ríkið ætlar að fara að leggja fé í púkið sem þarf sennilega ekki að gera með Landsbankann því hann stendur þetta af sér. Og ríkið á lítinn hlut í hinum bönkunum, um 10%, að mig minnir.“ 

- Gylfi telur að það verði að koma til eiginfjárstyrking verði þessi leið á annað borð farin og að hún verði að koma frá ríkinu. Hvernig bregstu við þeim orðum?

„Það er ekki víst að það þurfi að koma til eiginfjárstyrking. Það er það sem hefur komið fram á þessum nefndarfundum og meira segja í morgun með fjármögnunarfyrirtækjunum. Þannig að þarna er Gylfi beinlínis að blekkja.“

Sömu viðbrögð og í Icesave-málinu

- Hvers vegna ætti hann að vera að blekkja?

„Af því að hann er þeirrar skoðunar að það eigi ekki að fara þessa leið. Þetta er pólitísk afstaða Samfylkingar og ríkisstjórnarinnar. Þetta er alveg nákvæmlega sömu viðbrögð og hann og ráðherrar í ríkisstjórninni beittu í Icesave-málinu. Þeir halda fram pólitískum sjónarmiðum sem þeim hentar. Mér finnst satt að segja ógeðslegt að horfa upp á þetta því að þeir varpa fram hér misvísandi og röngum upplýsingum í pólitískum tilgangi.“

Þór undrast ummæli viðskiptaráðherra.

„Það sem hann er að segja er að það gangi ekki upp að vextirnir í samningunum verði látnir gilda. Ég átta mig nú ekki á því með hvaða hætti ráðherra í ríkisstjórn Íslands getur hafnað því að hlíta niðurstöðu Hæstaréttar.

Viðbrögð Gylfa einkennast líka af því að hann er að framfylgja stefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, sjóðs sem er hliðhollur fjármagnseigendum en er andstæður almenningi,“ segir Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar.

Þór Saari.
Þór Saari. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka