Treystir bönkunum

Við bryggjuna.
Við bryggjuna. Skapti Hallgrímsson

Atli Gíslason, þingmaður VG, treystir því að bankarnir muni ekki fara í kringum ný lög sem takmarka tímabundið framsal aflaheimilda úr byggðarlögum. Atli segir bankana ekki hafa viljað koma til móts við óskir stjórnvalda um að byggðasjónarmiða skyldi gætt við skuldauppgjör.

Framsal sem nemur fimmtungi heildarafla eða meira er hér eftir tilkynningaskylt og ber ráðherra að úrskurða í hverju tilviki fyrir sig hvort það standi.

Lögin sem um ræðir voru samþykkt 16. júní og tekur Atli, sem á sæti í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, sérstaklega fram að litið sé á lögin sem neyðarúrræði við erfiðar aðstæður.

„Það liggur fyrir að um og yfir 20% fyrirtækja í sjávarútvegi séu í erfiðri aðstöðu, eða í gjörgæslu hjá bönkunum, og að það sé hugsanlega verið að ráðstafa hugsanlega aflaheimildum, miklum aflaheimildum, út úr smærri byggðalögum. Það myndi hafa afdrifarík samfélagsleg og byggðaleg áhrif.“

Lagasetningin neyðarúrræði

- Þannig að þið teljið þetta nauðsynlegt til að vernda störf í byggðunum? 

„Þetta er neyðarúrræði. Við reyndum að ná samkomulagi við bankanna og lánastofnanir en það gekk ekki nógu langt. Þannig að við fórum áfram með málið en lögunum er fyrst og fremst ætlað að vernda smærri byggðirnar, sjávarbyggð þar, atvinnu og búsetu.“

- Hvernig fóruð þið fram með þá kröfu til bankanna að tekið skyldi tillit til byggðasjónarmiða?

„Við kölluðum þá á fund nefndarinnar þrisvar sinnum. Þeir voru tilbúnir að skoða þetta allt en svo báru þeir fyrir sig persónuverndarupplýsingum. Ég taldi það vera misskilning. Við náðum töluvert saman en ekki nægjanlega. Þetta er neyðarréttarúrræði.“

Bankarnir bera fyrir sig persónuverndarákvæði

- Hvernig báru bankarnir fyrir sig persónuverndarákvæðum?

„Að þeir þyrftu þá hugsanlega að upplýsa um skuldastöðu viðkomandi fyrirtækja og þar fram eftir götunum. Við vildum að þetta kæmi inn í verklagsreglur, að það yrði samráð við hið opinbera og annað slíkt.

Þeir voru tilbúnir að gæta byggðasjónarmiða en vildu ekki ganga nógu langt. Þannig að löggjöfin varð að veruleika. Þetta er neyðarréttarúrræði í efnahagskreppu og gildir í tvö ár.“

Rímar vel við stefnu VG í sjávarútvegsmálum

- Hvernig myndi svona lagasetning ríma við stefnu VG í sjávarútvegsmálum í venjulegu árferði?

„Ég held að hún rími við stefnuyfirlýsingu okkar sem birtist í Hafið, bláa hafið, stefnuyfirlýsing sem var gefin út á sínum tíma. Við viljum setja takmarkanir við framsali sem hefur verulega byggðaröskun í för með sér. Við erum að tala um fimmtung aflaheimilda sem eru að fara út úr byggðalagi, það er að segja 20%.“

- Gætirðu útskýrt þetta hlutfall nánar?

„Það er talað um að þegar hlutur nær því hlutfalli sé hann verulegur, að hann hafi veruleg atvinnu- og búsetuáhrif í byggðalaginu þegar svona mikið af aflanum fer.“

Umfram 20% háð samþykki ráðherra

- Þannig að allt framsal umfram 20% eða meira er takmarkað?

„Það er háð samþykki ráðherra. Það þarf að tilkynna það. Ráðherra getur sett skilyrði en hann verður auðvitað að gæta stjórnsýslulegs meðalhófs og jafnræðis og allt þar fram eftir götunum. Hann getur ekki tekið einhverjar geðþóttaákvarðanir. Hann er bundinn af stjórnsýslulögum.“

- Hvað með aflaheimildir sem eru undir 20% af heildaraflanum?

„Þá er ekki inngripsheimild. Þá er það er ekki tilkynningaskylt. Ef hlutfallið er 20% eða hærra ber handhafa aflaheimilda hins vegar að tilkynna það til fiskistofu og hún lætur ráðherra vita og hann þarf að bregðast við innan tveggja mánaða hvort hann ætli að setja skilyrði eða ekki,“ segir Atli og vísar til framsalsbeiðna.

- Óttist þið þá ekki að fyrirtæki muni leika á þetta með því að framselja afla í smærri skrefum?

„Það eru þá ekki fyrirtækin heldur helst bankarnir. Nei. Ég treysti bönkunum og þeim sem eru í skuldauppgjöri að þeir fari ekki fram hjá þessu. Ég verð bara að treysta því.

Ef ráðherra grípur inn í að þá gerir hann það í nánu samráði við bankanna, sveitarfélögin og hagsmunaðila í byggðalaginu. Það er uppskriftin. Vonandi kemur alls ekki til að það þurfi að beita þessu,“ segir Atli Gíslason.

Úr myndasafni. Atli Gíslason, VG, í ræðustól Alþingis.
Úr myndasafni. Atli Gíslason, VG, í ræðustól Alþingis. Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert