Afnám gengistryggingar lána, samkvæmt dómi Hæstaréttar sem féll 16. júní síðastliðinn, mun kosta að minnsta kosti 100 milljarða króna, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.Sú fjárhæð mun lenda á fjármálafyrirtækjum, lántakendum, íslenska ríkinu eða dreifast á milli þeirra.
Heimildir Viðskiptablaðsins herma að fjármálafyrirtækin muni tilkynna um það í dag eða á morgun að höfuðstóll gengistryggðra lána, sem Hæstiréttur dæmdi ólögmæt, verði færður niður með teknu tilliti til verðtryggingar.
Þar verði miðað við vexti Seðlabanka Íslands í stað þeirra lágu vaxta sem gengistrygging lána gerði fjármálafyrtækjum kleift að bjóða viðskiptavinum sínum. Þessi bráðabirgðalausn mun síðan gilda þar til Hæstiréttur hefur skorið úr þeirri réttaróvissu sem skapaðist með dómi hans í síðustu viku.
Stjórnvöld eru mjög treg til að eiga beina aðkomu að bráðabirgðalausninni til að koma í veg fyrir þá mögulegu skaðabótaskyldu sem hún gæti bakað sér þegar fram líða stundir.
Bankarnir færu á hliðina Heimildir Viðskiptablaðsins herma að stjórnvöld, fjármálafyrirtæki, Seðlabankinn og aðrir hagsmunaaðilar, sem komið hafa að viðræðum um næstu skref í málum tengdum gengistryggðum lánum, séu allir sammála um að ekki sé mögulegt að láta áður gengistryggða lánasamninga einfaldlega standa án gengistryggingarinnar.