„Hann var með svolítið sérkennileg sjónarmið varðandi Ísland og fjármálakrísuna að mér fannst," segir Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins um Per Sanderud, forseta Eftirlitsnefndar EFTA, en til snarpra orðaskipta kom á ráðherrafundi EFTA í dag þegar Icesave málið bar á góma.
Guðlaugur segist hafa átt hörð orðaskipti við Sanderud sem hafi ekki virst þekkja vel til Icesave deilunnar. „Hann lýsti því meðal annars yfir að hann liti svo á að ríkisábyrgð væri á lágmarksinnistæðum, en gat ekki útskýrt af hverju það væri þá verið að breyta tilskipuninni [um innlánatryggingakerfi] því það væri ekki hans mál. Það er orðið mjög mikil ráðgáta af hverju menn voru að breyta orðalaginu í þessari tilskipun,“ segir Guðlaugur.
„ Við tókumst líka á um neyðarlögin, hann sagðist hafa miklar áhyggjur af ójafnræðinu sem hlytist af þeim án þess að geta fært nánari rök fyrir því. Þegar ég gekk á hann bakkaði hann og sagði að neyðarlögin væru í lagi en sagði hins vegar að hann liti svo á að deilan snerist ekki um kjörin á láninu heldur um það hvort Íslendingar vildu greiða eða ekki."
Guðlaugur segir afstaða Sanderud slæmar fréttir. „Mér finnst það áhyggjuefni að sjá hver nálgunin er hjá þetta valdamiklum manni. Og það var ekki eins og hann gæti fært sterk rök fyrir sínu máli, þvert á móti virtist hann ekki hafa vel ígrundaða skoðun á þessu deilumáli okkar. Þetta er nú stofnun sem við eigum aðild að og það er afskaplega mikilvægt að hún fari vel og ígrundað yfir svona mál sem varða okkar hagsmuni."