„Hvalir eru eins og hver annar fiskur"

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, er meðal þeirra fjölmörgu sem eru staddir í Agadir í Marokkó þar sem ársfundur Alþjóða hvalveiðiráðsins stendur yfir. Hefur AFP fréttastofan eftir Kristjáni að hann sjái ekki muninn á hvalveiðum og öðrum fiskveiðum. „Hvalir eru eins og hver annar fiskur".

Deilt hefur verið um það hvort heimila eigi hvalveiðar í atvinnuskyni á ný en Alþjóðahvalveiðiráðið bannaði slíkar veiðar árið 1986. Íslendingar, Japanir og Norðmenn hafa hins vegar virt bannið að vettugi.

Viðræður um tillögu sem allir gætu sætt sig við runnu hins vegar út í sandinn í gær. Segir Kristján að það skipti litlu. „Þetta er allt tíma- og peningasóun," sagði Kristján við fréttamann AFP í Marokkó. „Umræðan hér snýst um að auka atvinnuleysi." 

Vísar hann til smæðar Íslands og að áhrifin af banni við hvalveiðum í atvinnuskyni á Íslandi hefði svipuð áhrif og á að 15 þúsund Bandaríkjamenn myndu missa vinnuna.

„Bandaríkin eru verst og Evrópusambandið," sagði Kristján og gerði fréttamönnum ljóst að hann vonaðist til þess að Ísland myndi ekki ganga í Evrópusambandið. Hann bendir á að þeir sem hafi hæst í verndarmálum hvala hafi drepið 64 þúsund steypireyðar á árunum 1933-1966 og 105 þúsund langreyðar í Suðurhöfum. Þeir þjáist af sektarkennd.

Aðspurður segist Kristján ekki trúa þeim kenningum sem uppi eru um tengsl manna og ýmissa hvalategunda. „Ég trúi því ekki. Ef þeir eru svona vel gefnir hvers vegna halda þeir sig ekki fjarri landhelgi Íslands."

Hann bendir á að ef langreyðar fengju að fjölga sér óhindrað við Íslandsstrendur þá hefði það slæm áhrif á aðrar fiskitegundir þar sem þær myndu keppa um fæði við aðra. Kristján viðurkennir að hann myndi hins vegar aldrei keppa að því að veiða þá síðustu, það ef tegundin væri í útrýmingarhættu. 

Farið er yfir feril Kristjáns í viðtali við AFP, að hann hafi hafið störf á hvalveiðiskipi föður síns árið 1956, þrettán ára að aldri. Í 100 daga hafi hann verið á hvalveiðum það sumar.  Þetta hafi verið gott sumarstarf og sé það enn.


Kristján Loftsson, forstjóri Hvals
Kristján Loftsson, forstjóri Hvals mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert