Meirihluti ofbeldismála heimilisofbeldi

Myndin er sviðsett.
Myndin er sviðsett.

Meiri­hluti of­beld­is- eða ágrein­ings­mála milli skyldra og tengdra ein­stak­linga eru skráð á höfuðborg­ar­svæðinu, eða 76% of­beld­is­mála og 81% ágrein­ings­mála. Flest til­vik­in áttu sér stað á heim­ili eða einkalóð, eða í 92% til­vika. Þetta kem­ur fram í rann­sókn­ar­skýrslu rík­is­lög­reglu­stjóra og lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu um heim­il­isof­beldi.

Fram kem­ur á vef lög­regl­unn­ar að til­kynn­ing­ar um heim­il­isof­beldi dreif­ist nokkuð jafnt yfir árið.  Hins veg­ar séu flest til­vik til­kynnt um helg­ar eða 47%.  At­hygli veki að þegar tími til­kynn­ing­ar sé skoðaður eft­ir viku­degi þá hafi heim­il­isof­beldi oft­ar verið til­kynnt á kvöld­in á virk­um dög­um en eft­ir miðnætti og fram eft­ir nóttu um helg­ar.

Gerend­ur voru 787 og komu þeir við sögu í 950 til­vik­um. Í 76% til­vika voru karl­ar gerend­ur og í 24% til­vika kon­ur.  Meðal­ald­ur gerenda var 35 ár. 

Kon­ur voru lík­legri en karl­ar til að vera ít­rekað þolend­ur og að sama skapi voru karl­ar lík­legri en kon­ur til að vera ít­rekað gerend­ur. 7% karl­anna og 15% kvenn­anna komu oft­ar en einu sinni fyr­ir í skýrsl­um lög­reglu sem þolend­ur.  Þegar önn­ur brot gerenda voru skoðuð kom í ljós að 715 þeirra höfðu verið kærðir fyr­ir önn­ur brot en heim­il­isof­beldi á ár­un­um 2000 til 2007, flest­ir fyr­ir um­ferðarlaga­brot. 

For­saga var þekkt í um helm­ingi til­vika.  Þegar þau til­vik voru skoðuð kom í ljós að í um 30% til­vika var heim­il­isof­beldi rakið til skilnaðar eða sam­bands­slita.  Áfeng­is- eða vímu­efna­neysla var hluti af for­sögu rúm­lega 18% of­beld­is­mála og 12% ágrein­ings­mála.

Rann­sókn­in er hluti af stærra verk­efni sem hófst árið 2000 er rík­is­lög­reglu­stjóri ákvað að gera rann­sókn á of­beldi, eins og það birt­ist í gögn­um lög­reglu og gögn­um Land­spít­ala há­skóla­sjúkra­húss. Í fram­hald­inu var gerð áætl­un um að skoða mis­mun­andi teg­und­ir of­beld­is og byrjað á of­beldi gegn lög­reglu­mönn­um og birt­ust niður­stöður þeirr­ar rann­sókn­ar í skýrslu árið 2007.

Í rann­sókn­ar­skýrsl­unni um heim­il­isof­beldi var unnið með sam­tals 993 mál sem töld­ust annaðhvort of­beldi eða ágrein­ing­ur milli skyldra og tengdra og til­kynnt voru til lög­reglu á ár­un­um 2006-2007.  Rann­sókn­ina gerðu þær Guðbjörg S. Bergs­dótt­ir, fé­lags­fræðing­ur hjá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra og Rann­veig Þóris­dótt­ir, deild­ar­stjóri hjá lög­reglu­stjór­an­um á höfuðborg­ar­svæðinu.


mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert