Ný stjórn OR innleiði nýja stefnu

Nýr meirihluti borgarstjórnar skilgreinir verkáætlun fyrir stjórn OR
Nýr meirihluti borgarstjórnar skilgreinir verkáætlun fyrir stjórn OR mbl.is/Sverrir

Tillögur fjármálastjóra Reykjavíkurborgar, Birgis Björns Sigurjónssonar, um viðbrögð við áhættu borgarsjóðs vegna skuldastöðu Orkuveitu Reykjavíkur, voru lagðar fram í borgarráði í dag. Í þeim felast m.a. aðgerðir til að auka trúverðugleika Reykjavíkurborgar sem bakábyrgðaraðila gagnvart lánamörkuðum.

Þá leggur fjármálastjórinn til að settur verði á laggirnar sérstakur áhættustýringarhópur Reykjavíkurborgar, sem fylgist með og miðli til borgarstjóra og borgarráðs upplýsingum og tillögum á grundvelli áhættugreininga fjármálaskrifstofu.

Með aðgerðunum telur Birgir Björn að ekki einungis takist að auka trúverðugleika borgarinnar heldur hafi þær einnig áhrif á aðgengi og lánskjör við samningsgerð um endurfjármögnun.

Þá er og lagt til að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur útbúi áætlun um þróun gjaldskráa til næstu ára, sem hafi það að markmiði að ná ásættanlegu greiðsluhæfi fyrirtækisins fyrir árin 2010 til 2013.

Í bókun nýs meirihluta í borgarráði er verkáætlun fyrir stjórn OR skilgreind. Þar segir að fjármögnun verði sérstakur þáttur í starfi stjórnarinnar og koma verði á ásættanlegu jafnvægi milli tekna og gjalda sem allra fyrst.

Þá kalli brýnar breytingar á skýra forystu innan OR. Það verði því verkefni stjórnarformanns fyrst um sinn að meta stöðuna með stjórn fyrirtækisins, og vinna að nauðsynlegum breytingum.

Jafnframt sé hlutverk stjórnarinnar að innleiða stefnu borgarstjórnar og áherslur hinnar nýju orku- og auðlindanefndar, sveigja skuli af stóriðjustefnu til aukinnar fjölbreytni í orkusölu og sjálfbærrar almannaþjónustu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert