Öfugsnúin viðbrögð ríkisstjórnar og Seðlabanka

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Kristinn Ingvarsson

Þetta ætti að vera mjög einfalt mál, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, um dóma Hæstaréttar um gengistryggð lán. „Með dómi Hæstaréttar þarf að afskrifa kröfur útlendinga á Íslendinga upp á tugi eða hundruð milljarða króna. Þegar þær kröfur lækka svona mikið ætti það að gagnast þeim sem fá þessar afskriftir, en líka samfélaginu í heild."

Hann sagði Gylfa Magnússon tala eins og það hafi verið gerð einhver stórkostleg mistök við stofnun nýju bankanna, eftir hrun. Hann sgði að nú þegar afskrifa ætti gríðarlegar kröfur útlendinga, færi ríkisstjórnin skyndilega að tala um að þær afskriftir gætu lent á skattgreiðendum. Það benti til þess að menn hafi klúðrað málum alveg ótrúlega við stofnun nýju bankanna. Tveir þeirra, Íslandsbanki og Arion, eru að mestu leyti í eigu útlendinga, þ.e. hinna erlendu kröfuhafa gömlu bankanna.

Hann sagði að Björn Þorri Viktorsson, lögmaðurinn sem flutti annað málið fyrir Hæstarétti 16. júní, hefði fyrir margt löngu sent bréf til ríkisstjórnarinnar og þingmanna og varað við því að taka þyrfti tillit til þess við stofnun nýju bankanna að svona gæti farið. „Það virðist þó ekki hafa verið gert," sagði Sigmundur Davíð.

„Nú allt í einu talar viðskiptaráðherra um forsendubrest. Það mátti ekki heyra minnst á það þegar talað var um stöðu heimilanna, en þegar í hlut eiga erlendir kröfuhafar, sem einhverra hluta vegna er gríðarlega mikilvægt að halda góðum og gleðja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þá fer forsætisráðherra að gefa Hæstarétti fyrirmæli," sagði hann og vísaði í þau orð Jóhönnu Sigurðardóttur að reyna ætti að flýta því að fá dómsniðurstöðu um vaxtakjör erlendra lána.

Sigmundur Davíð sagði ennfremur að allt væri á hvolfi í því sem kæmi frá Seðlabankanum í tilefni af dómum Hæstaréttar. Bankinn hefði sagt að halda þyrfti vöxtum háum og hafa gjaldeyrishöftin lengur. Það taldi hann óskiljanlegt í ljósi þess að dómurinn hefði lækkað kröfur útlendinga á Íslendinga gríðarlega mikið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert