Óvissunni verði eytt sem fyrst

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, á Alþingi. mbl.is/Árni Sæberg

Það er ótrúlegt að hægt sé að stunda ólöglegar lánveitingar í níu ár, án þess að dómskerfið eða eftirlitsstofnanir ríkisins grípi inn í, sagði Jóhanna Sigurðardóttir, í umræðum um gengistryggð lán á Alþingi í dag. Dómur Hæstaréttar þess efnis að lánin séu ólögleg hafi leitt í ljós alvarlegar veilur á eftirlitskerfinu. Hún sagði að dómnum bæri að fagna en um leið leiddi af honum mikil óvissa.

Sagði hún að ríkistjórnin hefði ítrekað fjallað um þetta á undanförnum vikum og að ítarleg gögn lægju fyrir um áhrif þess á fjármálafyrirtækin að lánin yrðu dæmd ólögleg, eftir því hver yrði hin endanlega niðurstaða, m.a. um hvaða vextir ættu að gilda.

„Dómurinn um ólögmætið er alveg skýr en meiri óvissa er um hvernig fara eigi með umrædd lán í framhaldinu," sagði Jóhanna.

Hún lagði því áherslu á að reynt yrði að fá niðurstöður dómstóla um það sem allra fyrst, nákvæmlega hvaða kjör ættu að vera á svona lánum í framhaldinu. Kom hún í því samhengi inn á flýtimeðferð málanna fyrir dómstólum, sem Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins lagði fram frumvarp um í morgun og vildi fá afgreitt á þinginu strax í dag.

Sagði hún að með flýtimeðferð væri átt við að allir frestir styttust, en það gæti bara tekið til þeirra mála sem ekki hefðu enn verið borin undir dómstóla á neinum stigum, gæti ekki verið afturvirkt.

„Ég bendi á að með samvinnu aðila máls, lögmanna og dómara væri unnt að fá niðurstöðu í svona málum strax í haust. Þess ber þó að gæta að dómsvaldið er sjálfstætt og ekki á að ganga á þann rétt," sagði Jóhanna og taldi þannig hægt að flýta ferð þessara mála í gegnum dómskerfið án þess að til lagasetningar kæmi.

Hún vildi þó undirbúa frumvarp þess efnis fyrir haustið.

Sagði Jóhanna að gott samráð hefði verið haft um þessi mál og því yrði að halda áfram. Málið væri svo risavaxið að öll skref yrði að taka á grundvelli víðtækrar samstöðu stjórnar og stjórnarandstöðu.

„Stóra álitamálið er á hvaða forsendum ber að innheimta lánin fyrst gengistryggingin var dæmd ólögleg," sagði Jóhanna, hvort óbreyttir samningsvextir ættu að gilda eða óverðtryggðir vextir Seðlabankans.

Hún sagði að áhrif dómanna á bankakerfið og eins á ríkissjóð myndi ráðast af niðurstöðu Hæstaréttar um þessi álitamál og því væri það afar óheppilegt ef það tæki einhverja mánuði að eyða þeirri óvissu um rekstur bankanna og ríkissjóðs. Hún hvatti til mikillar varfærni í við ákvarðanatöku í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka