Samningsvextir haldist ekki

„Við lifum á áhugaverðum tímum," sagði Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra þegar hann hóf munnlega skýrslu sína um áhrif þess að Hæstiréttur hefur dæmt gengistryggingu lána í krónum ólöglega.

„Þessi dómur hann bæði leysir vandamál og gæti hugsanlega búið til vandamál og við honum þarf að bregðast," sagði Gylfi. Sagði hann að leitað hefði verið leiða til að taka á þeim vanda sem lánin hefðu skapað eftir fall krónunnar.

Framkvæmdavaldið hefði reynt að ná samningum við eignaleigufyrirtæki og löggjafinn hefði verið langt kominn með að setja lög til að taka á vandanum. Þá hefði Hæstiréttur stigið inn á sviðið og úrskurðað gengistrygginguna ólögmæta. Það gerbreyti stöðunni svo eftirstöðvar lánanna lækki að jafnaði um meira en helming.

„Það eru vitaskuld afar gleðilegar fréttir," sagði Gylfi. „Nánast öll þjóðin hlýtur að fagna því að vandi þessara fjölskyldna hefur verið leystur með þessum hætti."

Ekki hægt að stinga höfðinu í sandinn

En Gylfi sá einnig blikur á lofti. „Í hnotskurn má kannski segja að fjármálakerfið sem við komum á laggirnar 2008 hafi verið undir það búið, að ekki væri hægt að innheimta lán sem þessi að fullu. Fyrir því var í raun aldrei gert ráð. En fjármálakerfið var ekki undir það búið að fyrir utan að gengistryggingin sem slík væri dæmd ólögmæt, þá væru lögin túlkuð þannig að hinir erlendu vextir skyldu standa á þessum lánum," sagði hann.

Eðlilegir innlendir vextir, sem eins og flestir vita eru talsvert hærri, væru þau kjör sem gert hefði verið ráð fyrir í þessu samhengi, þegar nýja bankakerfið var sett á fót. Sagði hann að það væri eitthvað sem ekki væri hægt að stinga höfðinu í sandinn vegna eða horfa framhjá.

Sagði hann að mönnum væri sannarlega mishlýtt til fjármálakerfisins. „En högg af þeirri stærðargráðu sem gæti orðið ef allt færi á versta veg, frá sjónarhóli lánveitenda, mun óhjákvæmilega lenda á öðrum, þar á meðal ríkissjóði og þar með skattgreiðendum og notendum opinberrar þjónustu."

Hann spurði sig einnig hvernig þetta hefði getað gerst. Að lög væru ekki virt árum saman og allir hafi horft framhjá því.

Fagnar sanngjörnum dómi heilshugar

Hins vegar lagði hann áherslu á að Hæstiréttur væri í dómum sínum að dæma eftir formi, en ekki á grundvelli réttlætissjónarmiða. Lán sem veitt væru í krónum með erlendri gengistryggingu væru enda hvorki hættulegri né verri en önnur erlend lán, sem veitt væru í erlendri mynt.

Ákvæðið sem bannar þessa tilteknu gengistryggingu hefði heldur ekki verið sett inn í lögin á sínum tíma vegna neinna neytendaverndarsjónarmiða. „Því verður að spyrja hvers vegna þetta var sett inn í lögin og hvort þetta eigi að vera svona áfram. Þetta er eitt af því sem Alþingi hlýtur að taka til skoðunar fyrr eða síðar," sagði Gylfi.

„En þó má auðvitað benda á að þó Hæstiréttur hafi ekki fellt þennan dóm með sanngirnisrökum, þá eru margir, þar á meðal sá sem hér stendur, sem telja að þá hafi þessi niðurstaða í sjálfu sér ekki verið neitt ósanngjörn. Því ber að fagna og ég geri það heilshugar," sagði Gylfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka