Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir sjálfsagt að gleðjast með þeim sem orðið höfðu fyrir þungum búsifjum vegna gengistryggðra lána, í kjölfar dóma Hæstaréttar um að gengistryggingin sé ólögleg. Hins vegar þurfi að skoða hvernig sé vænlegast að vinna úr þeim aðstæðum sem hafa skapast vegna dómsins.
Annað og miklu stærra álitamál sé hvort menn eigi engu að síður að halda þeim erlendu vöxtum, sem tengdir voru lánunum og fá sumum skuldurum þar með allt önnur og miklu hagstæðari lánakjör á þetta en gilda á öllum öðrum skuldum í landinu, þ.e. hefðbundnum innlendum verðtryggðum lánum. Það væri aðalatriði málsins.
Steingrímur tekur skýrt fram að yfirlýsing stjórnvalda um að allar innistæður í bönkum séu tryggðar sé enn í fullu gildi. „Og engin ástæða til þess að taka út af bankareikningum. Óðagot og umrót af því tagi gerir aðeins illt verra," segir hann. Enginn bráðavandi sé á ferðum sem gefi tilefni til stórra áhyggna. Málið væri hins vegar af þeirri stærðargráðu að það kallaði á rækilega yfirferð.
Steingrímur segist leggja höfuðáherslu á að sem minnst af því tjóni sem með dómnum yrði fært á milli aðila lendi á ríkissjóði. Ríkissjóður hafi þurft að taka á sig stóra skelli nú þegar við endurfjármögnun Seðlabankans eftir tæknilegt gjaldþrot hans árið 2008 og við endurfjármögnun banka, stofnfjár og víkjandi lána.
„Þungir reikningar hafa nú þegar lagst á ríkissjóð. Og hverjir eru það? Það erum við, almenningur í landinu og skattgreiðendur framtíðarinnar," sagði Steingrímur.