Verði gengistryggð íbúðalán Arion banka dæmd ólögmæt mun það hafa neikvæð áhrif á eigið fé bankans, en ekki að því marki að það stefni efnahag bankans í hættu.
Þetta segir í athugasemd frá bankanum, sem er svohljóðandi:
„Arion banki hefur metið dómsniðurstöðu Hæstaréttar vegna gengistryggðra bílalána og möguleg áhrif á eigið fé bankans.
Kæmi til þess að íbúðalán bankans verði dæmd ólögmæt hefði það neikvæð áhrif á eigið fé bankans en ekki að því marki að það stefni efnahag bankans í hættu.
Í þessu sambandi má nefna að verði öll lán í erlendum myntum til einstaklinga dæmd ólögleg, þá lækkar nafnvirði lánanna verulega. Áhrifin á Arion banka yrðu ekki meiri en svo að bankinn stæðist áfram lögbundnar kröfur um eigið fé.
Eiginfjárhlutfall bankans er sterkt og yfir ítrustu kröfum FME. Arion banki tekur fram að fái greiðendur erlendra lána sér dæmdan betri rétt í Hæstarétti, missa þeir ekki þann rétt þó þeir hafi skuldbreytt lánum sínum yfir í íslenskar krónur.“