„Það hefur tekið forsætisráðherra þrjá mánuði að svara þessum tiltölulega einföldu spurningum svo ég er auðvitað ánægður að fá svörin þó seint sé,“ segir Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, en Jóhanna Sigurðardóttir svaraði í dag fyrirspurn hans um aðdraganda undirritunar Icesave samninganna.
„Hinsvegar finnst mér alveg ljóst að í þessum svörum er annars vegar verið að sýna mjög villandi mynd af aðdraganda undirritunar samninganna, og hins vegar, sem er sýnu alvarlegra, að skauta yfir kjarnaspurninguna,“ bætir Birgir við og vísar þar til 4. liðar svarsins.
Þar var spurt hvort forsætisráðherra og aðrir ráðherrar teldu að samkomulagið og undirritun þess nytu stuðnings meirihluta Alþingis.
Birgir segir að þar sem fram hafi komið í viðtölum við Lilju Mósesdóttur að 5 þingmenn Vinstri grænna hafi ekki verið sáttir við að Steingrímur J. Sigfússon undirritaði samninginn í júní í fyrra hefði fjármálaráðherra átt að vera ljóst að meirihluti þingmanna væri andvígur því að hann gerði það.
Þá segir Birgir að ekkert samráð hafi verið haft við stjórnandstöðuflokkana, þeim hafi einungis verið kynnt meginefni samningsins á stuttum fundum að morgni 5. júní 2009 og því gefi svar forsætisráðherra villandi mynd af aðdraganda málsins.