Þingfundum frestað

mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra frestaði fundum Alþingis um klukkan 17. Sumarhléið verður óvenjustutt líkt og kom fram í máli Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta þingsins. Fundir þingnefnda hefjast 17. ágúst og þingfundir að nýju í upphafi september.

„Eiginlegu vorþingi lauk miðvikudaginn 16. júní sl., nokkurn veginn eins og endurskoðuð starfsáætlun þingsins sagði til um. Þó var ákveðið, m.a. til þess að vanda sérstaklega til lagasetningar er varðar hag margra heimila í landinu, að fresta síðustu umræðu um nokkur frumvörp þar til í dag. Nú er þeim störfum lokið. Öll vonum við að vel hafi til tekist og að létta megi þungan róður margra fjölskyldna á þeim erfiðu tímum sem nú ganga yfir.

Sumarhléið verður óvenjustutt. Fundir þingnefnda hefjast 17. ágúst og þingfundir að nýju í upphafi september. Ég vil leggja áherslu á að á nefndadögum ljúki nefndirnar afgreiðslu þeirra mála sem til umræðu verða á septemberfundunum. Við megum ekki freistast til þess að ætla okkur of mikið þessa fundadaga í september, og höfum í huga að nýtt þing er fram undan, 1. október.

Sérstakt álag er á þingmannanefnd sem kosin var til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og ef henni gengur vel við verkefni sitt þarf hún forgang í störfum okkar, bæði í ágúst og september,“ sagði Ásta.

Ávarpið í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka