Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna mótmæla harðlega þeirri tillögu að stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, Haraldur Flosi Tryggvason, verði gerður að starfandi stjórnarformanni og verði þannig hluti af launuðu stjórnendateymi fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu.
„Þessi ráðstöfun er algjört einsdæmi og í miklu ósamræmi við það eftirlitshlutverk sem stjórnarformanni ber að sinna gagnvart stjórnendum fyrirtækisins, auk þess hlutverks sem hann hefur í stjórn fyrirtækisins.
Það vekur einnig furðu að á tímum hagræðingar og sparnaðar, skuli meirihlutinn ákveða að bæta við manni í annars fjölmenna yfirstjórn Orkuveitunnar sem fær þá greitt kr. 920.000,- mánaðarlega.
Þessi ákvörðun er í mikilli andstöðu við fyrri stefnumörkun og þá viðleitni hjá Reykjavíkurborg að lækka launa- og stjórnenda-kostnað. Einnig benda fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna á þá lagalegu óvissu sem ríkir um slíka tillögu, enda hafa lög verið samþykkt á Alþingi sem heimila ekki að stjórnarformenn taki að sér önnur störf fyrir félagið," að því er segir í bókun minnihlutans á fundi borgarráðs.
Í bókun meirihlutans, Besta flokksins og Samfylkingar, kemur fram að stjórnarformaður OR verður ekki starfandi hluti af framkvæmdastjórn fyrirtækisins eins og gefið er til kynna í bókun minnihlutans.
„Í raun er furðulegt að minnihlutinn skuli nota það orðalag þvert á ábendingar og staðreyndir málsins. Hið rétta er að meirihlutinn hefur fengið þriggja manna teymi reynslumikils fagfólks til að leiða umfangsmikla endurskipulagningu á starfsemi og rekstri Orkuveitu Reykjavíkur með því að taka sæti í stjórn fyrirtækisins.
Fyrst um sinn verður stjórnarformanni gert kleift að gera það í fullu starfi og munu launakjör hans taka mið af launum næstu undirmanna borgarstjórans í Reykjavík. Besti flokkurinn og Samfylkingin leggja áherslu á að um tímabundna ráðstöfun er að ræða. Hún er engu að síður nauðsynleg vegna umfangs þeirra brýnu og umfangsmiklu verkefna sem öllum ætti að vera ljóst að ráða þarf fram úr á næstu vikum og mánuðum."
Bókun minnihlutans: „Fulltrúum Samfylkingar og Besta flokksins er tamt að tala um þriggja manna teymi með sérstakri áherslu á stjórnarformanninn. Hið rétta er að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er fjölskipað stjórnvald þar sem sex einstaklingar eiga sæti. Hvernig sem hið nýtilkomna fulla starf stjórnarformannsins er skilgreint, er ljóst að þar er verið að fara á svig við anda nýsamþykktra laga sem eiga að aðgreina hlutverk stjórnar og framkvæmdastjórnar. Ekki hefur verið tilgreint hversu lengi þessi ráðstöfun á að vara og er vandséð að ákvörðunin verði dregin til baka í náinni framtíð. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna ítreka að verkefni stjórnar Orkuveitunnar hafa um langt skeið verið umfangsmikil , án þess að nokkurn tíma hafi komið til að greiða einum manni gríðarhá laun til að ráða fram úr þeim."
Bókun meirihluta:
„Minnihlutinn vill vísa á hlutafélaga lög sem kveða á um að stjórnarformanni sé óheimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljast eðlilegur hluti starfa hans sem formanns félagsstjórnar. Um það er ekki að ræða í þessu tilviki heldur er þvert á móti það að stjórnarformanni verði gert kleift að sinna starfsskyldum sínum sem stjórnarformanns í fullu starfi, tímabundið. Annað er útúrsnúningur."
Svar minnihlutans:
„Lagaleg óvissa um málið er aðeins ein hlið þess. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna er algjörlega á móti ákvörðunina, telja hana ranga og í raun ekkert annað en pólitíska ráðningu eins af fulltrúum meirihlutans."