Vill flýtimeðferð gengistryggingarmála

Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður.
Sigurður Kári Kristjánsson, alþingismaður. Valdís Þórðardóttir

Frumvarpi Sigurðar Kára Kristjánssonar og þingflokks Sjálfstæðisflokksins um flýtimeðferð gengistryggingarmála í dómskerfinu var útbýtt á Alþingi í dag.

Þegar Sigurður Kári hafði gert grein fyrir því að frumvarpið hefði verið lagt fram, og fyrir efni þess, í upphafi þingfundar í dag, tók þingheimur vel í frumvarpið og var málið einnig rætt á fundi forystumanna flokkanna sem þá stóð yfir. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, þakkaði Sigurði Kára fyrir frumvarpið.

Atli Gíslason, þingmaður VG, benti þó á að aðrar leiðir væru til í þessum málum, þ.e. að lánafyrirtæki gætu með fjárnámi farið til sýslumanns og gert mismunandi vaxtakröfur. slíkt fjárnám myndi sæta kæru til Héraðsdóms Reykjavíkur, það myndi sæta flýtimeðferð og hægt yrði að kæra það strax til Hæstaréttar sem myndi taka málið fyrir á um tveimur mánuðum, „að ég hygg," sagði Atli.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagðist fylgjandi því að málið fengi meðferð þingsins. Hins vegar væri ekki mikil óvissa vegna dóma Hæstaréttar um gengistrygginguna. Niðurstaðan væri skýr og efni gengistryggðra lánasamninga ætti að gilda að öðru leyti en því sem varðar gengistrygginguna. „Vextir sem þar eru tilgreindir eiga að gilda,“ sagði Höskuldur.

„Ég vona að við þingmenn getum sleppt því að bregða fæti fyrir þá atburðarás sem nú á sér stað. Þetta mál væri það eina sem ég myndi samþykkja, annars eiga dómar og reglur og lög í landinu að gilda," sagði hann.

Nálgast má frumvarp Sigurðar Kára hér, á Alþingisvefnum.

Leiðrétt: Fyrr í dag sagði í fréttinni að veitt hefðu verið afbrigði fyrir því að taka frumvarp Sigurðar Kára á dagskrá. Það er ekki rétt og er beðist velvirðingar á þeim mistökum. Hið rétta er að Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði ástæðu til þess að undirbúa annað frumvarp þess efnis sem gæti komið til kasta þingsins í haust.

Lýsti Sigurður Kári yfir óánægju sinni með þau viðbrögð Jóhönnu og sagði alla þá vinnu óþarfa, þar sem frumvarpið lægi þegar fyrir um nákvæmlega það mál. Ef sú leið yrði farin væri verið að vinna á hraða snigilsins að því að veita málum flýtimeðferð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert