Byr sendir óbreytta greiðsluseðla

Byr
Byr Guðmundur Rúnar Guðmundsson

Viðskiptavinir Byrs sem eru með erlend lán fá senda óbreytta greiðsluseðla um mánaðamótin, þrátt fyrir dóm Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggingar í síðustu viku. Samkvæmt svörum Byrs er þetta  gert þar sem Byr bauð aðeins húsnæðislán í erlendri mynt og telur bankinn sig því ekki í sömu stöðu og þau fyrirtæki sem buðu erlend bílalán.

„Þetta var skammur tími sem var til stefnu og það er ákveðin óvissa sem ríkir. Ef niðurstaðan verður sú að öll erlend lán verða úrskurður ólögleg þá auðvitað leiðréttum við þau," segir Trausti Haraldsson, forstöðumaður á skrifstofu forstjóra Byrs. „Meginskýringin er sú að við höfum aldrei boðið upp á bílalán í erlendri mynt, ef við hefðum verið að veita slík lán þá hefðum við auðvitað brugðist við eins og önnur fyrirtæki."

Verið að skoða vænlegar lausnir sem henta viðskiptavinum bankans sem eru með erlend lán að sögn Trausta. Allir viðskiptavinir með erlend lán munu fá send bréf þar sem málið er skýrt fyrir þeim.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa hvatt öll fjármálafyrirtæki sem veittu gengistryggð lán til að stöðva innheimtuaðgerðir eða takmarka innheimtu við upphaflega greiðsluáætlun, fyrir gengisbreytingar, á meðan óvissa ríkir um hvaða lán teljist erlend og hver gengistryggð.  Vísa samtökin í 36. grein samningalaga þar sem segir að vafi skuli ætíð túlkaður neytandanum í hag.

Athugasemd sett inn klukkan 13:55 

Byr er ekki eina fjármálafyrirtækið sem hefur sent frá sér óbreytta greiðsluseðla vegna fasteignalána sem eru tengd erlendri mynt. Líkt og fram hefur komið þá fjalla dómarnir tveir sem vísað er til um bílalán ekki fasteignalán.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka