Flokksráðsfundur Vinstri grænna var settur nú á sjötta tímanum í kvöld. Fundurinn hófst á stuttri ræðu Steingríms J. Sigfússonar þar sem hann þakkaði Drífu Snædal, fráfarandi framkvæmdastjóra flokksins, fyrir vel unnin störf. Þá tilkynnti hann að Auður Lilja Erlingsdóttir, fyrrum formaður ungra vinstri grænna, tæki við starfinu.
Þá hélt Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, setningarræðu þar sem hún fór í knöppu máli yfir stöðu flokksins í ríkisstjórn og eftir sveitarstjórnarkosningar. Þá tók hún fram að miðað við spár fjölmiðla um átök sem ættu að eiga sér stað á fundinum hefði fólk betur mætt í brynvörðum göllum. Katrín áréttaði að Vintstri grænir hefðu alla tíð rökrætt á opinskáan og beinan hátt en að hennar mati væru fundargestir allir í góðri sátt hvor við annan.