Afgreiðslum innanlandsaðstoðar Hjálparstarfs kirkjunnar hefur fjölgað gífurlega frá upphafi kreppunnar. Þegar þrír fyrstu mánuðir áranna 2008-2010 eru skoðaðir má sjá að afgreiðslur í ár eru tæplega fimm sinnum fleiri en árið 2008. Þær voru 570 þá en voru í ár 2.578.
Frá þessu er greint í Margt smátt, fréttablaði Hjálparstarfs kirkjunnar.
Þar segir að lág laun, atvinnuleysi og of miklar skuldir séu meginástæður þess að fólk leiti sér hjálpar. 45% þeirra sem fá aðstoð séu á örorkubótum, 31% fái atvinnuleysisbætur og 8% fái framfærslu frá sveitarfélögum.
Þegar aldursskipting sé skoðuð komi í ljós að fjölgunin sé hlutfallslega mest hjá þeim sem séu 20-29 ára, fari úr 66 afgreiðslum í 521. Afgreiðslur áttfaldast.
Fjölgunin sé einnig mjög mikil í aldurshópnum 30-39 ára eða sexföld. Og hún er fjórföld í hópi 40-49 ára.
73% þeirra sem fá aðstoð eru á aldrinum 20-49 ára.