Götusmiðjan íhugar málaferli

Guðmundur Týr Þórarinsson
Guðmundur Týr Þórarinsson Valdís Þórðardóttir

Barnaverndarstofa lokaði í dag meðferðarheimilinu Götusmiðjunni í Grímsnesi. Forstöðumaður heimilisins segir aðgerðirnar ólögmætar og íhugar að fara í mál við Barnaverndarstofu.

Rétt fyrir kvöldmatarleytið ákváðu fulltrúar Barnaverndarstofu að fjarlægja ungmenni úr vistun hjá Götusmiðjunni, meðferðarheimili fyrir ungt fólk. Guðmundur Týr Þórarinsson, forstöðumaður hennar, segir í tilkynningu að aðgerðirnar hafi byggt á ólögmæti og hvorki verið í samræmi við samning Götusmiðjunnar og Barnaverndarstofu um vistun ungmenna né heldur stjórnsýslulög.

„Guðmundur Týr var hvorki upplýstur um fyrirætlanir Barnaverndarstofu áður en hafist var handa né heldur gefinn kostur á að tjá sig um þær. Honum eða starfsfólki hans var ekki gert viðvart um rannsókn sem hafin var í morgun að undirlagi Braga Guðbrandssonar, forstjóra Barnaverndarstofu, fyrr en hún hafði staðið yfir í átta klukkustundir og lauk með því að starfsfólk barnaverndarstofu fjarlægði ungmennin úr vistuninni,“ segir í tilkynningu Guðmundar.

Tildrög þess að ungmennin voru fjarlægð eru að Guðmundur Týr átti að hafa hótað ungmennum líkamsmeiðingum. Guðmundur vísar þeim ásökunum alfarið bug sem ósönnum og ósönnuðum.

„Um leið og fulltrúar Guðmundar Týs voru upplýstir um rannsókn Barnaverndarstofu var henni harðlega andmælt. Þá var þess krafist að forstjóri Barnaverndarstofu kærði hinar meintu hótanir til lögreglu, en þess má geta að honum er það skylt skv. barnaverndarlögum. Taldi Bragi Guðbrandsson ekki þörf á því. Þá voru gerðar athugasemdir við tildrög og upphaf rannsóknarinnar af hálfu fulltrúa Guðmundar Týs. Lögfræðingur félags- og tryggingamálaráðuneytisins tók undir að ekki hefði verið rétt að aðgerðum barnaverndarstofu staðið. Loks upplýsti forstjóri Barnaverndarstofu um að ákvörðun hans um riftun á þjónustusamningi Götusmiðjunnar yrði kynnt á mánudagsmorgun,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka