RÚV: AGS hefur áhyggjur af stöðu fjármálakerfisins

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur áhyggjur af íslenska bankakerfinu í kjölfar dóms Hæstaréttar um gengistryggð lán. Bankarnir eru að leggja lokahönd á samræmdar aðgerðir þar til ljóst verður hvernig mál þróast. Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.

Til stendur að breyta tímabundið greiðslutilhögun á gengistryggðum lánum þannig að afborganir af þeim verði álíka háar og þær voru fyrst eftir að lánin voru tekin. Þetta gildi þar til botn fáist í þau álitamál sem uppi eru, samkvæmt RÚV.

Af þessu hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áhyggjur, samkvæmt heimildum fréttastofu RÚV. Þessum áhyggjum hefur verið komið skýrt á framfæri við íslensk stjórnvöld.

Athugasemd sett inn klukkan 19:25:

Mbl.is hefur ekki fengið staðfest að fjármálafyrirtækin hafi komið sér saman um ákveðna greiðslutilhögun á gengistryggðum lánum líkt og fram kom í frétt RÚV í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert