Gestir á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll eiga margir hverjir von á „glaðningi“ þegar þeir snúa aftur til bíla sinna því lögreglumenn voru á níunda tímanum í kvöld í óða önn að skrifa út sektir á tugi bíla sem var ólöglega lagt við höllina.
Að sögn varðstjóra hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur þetta verið gert upp á síðkastið þegar stórir viðburðir eru í Laugardalshöllinni, síðast þegar Þjóðfundurinn var haldinn, eins og margir muni.
„Íslendingar eru svo skreflatir, þeir nenna varla að labba neitt og leggja bílum uppi á gangstéttum og grasi en það er alveg bannað.“
Þegar um svona mikinn fjölda bíla eins og nú er við Laugardalshöll sé að ræða fari lögreglan á staðinn til að reyna að koma skikki á málin.
„Og við gefum ekkert eftir í því núna, frekar en fyrri daginn.“Hann segir nóg til af bílastæðum í nágrenni Laugardalshallar, við Þróttarvöllinn, Laugardalsvöllinn og Skautahöllina, sem oft standi tóm. Þá séu oft tóm bílastæði við fyrirtæki á Suðurlandsbrautinni á kvöldin og um helgar.