Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, segir flokkinn taka skýra stefnu gegn fyrningarleiðinni og það megi ekki gleyma að standa vörð um lítil og meðalstór fyrirtæki sem berjast í bökkum í baráttunni við stóru fyrirtækin sem eru í eigu bankanna.
Þetta kom fram í máli Bjarna á landsfundi flokksins. Hann segir að landsfundur Sjálfstæðisflokksins sé sterkasta mótunaraflið í íslenskum stjórnmálum.
Áhrifamesti stjórnmálaflokkurinn
„Frá stofnun hans eða í rúm 80 ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið áhrifamesti stjórnmálaflokkur landsins. Og það er hér, á landsfundi, sem stefna er mótuð og það er hér sem ákvarðanirnar hafa verið teknar sem hafa haft gifturík áhrif á framtíð Íslands og Íslendinga. Höfum þetta hugfast þegar við hefjum störf okkar á þessum fundi Saga og stefna Sjálfsstæðisflokksins er samofin sögu Íslands. Hvort sem litið er til lokabaráttunnar fyrir sjálfstæði landsins, baráttunnar fyrir auðlindum okkar, uppbyggingu atvinnulífsins og aðild Íslands að NATO eftir heimsstyrjaldirnar, samstarfs við aðrar þjóðir eða mótun öflugs velferðarsamfélags, þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn ávallt staðið sterkur að baki. Og það er okkar hlutverk að sjá til þess að svo verði í framtíðinni.
Móta nýtt samfélag sem byggir á einstaklingsfrelsi og jafnrétti
Við Sjálfstæðismenn stöndum frammi fyrir krefjandi verkefnum, ekki bara í málefnum sem tengjast efnahag og stjórn landsins. Við verðum líka að líta heiðarlega inn á við, að skoða vegferð okkar og framtíðarsýn. En verkefni okkar, langmikilvægasta verkefni næstu ára, er að móta nýtt íslenskt samfélag sem byggir á einstaklingsfrelsi og jafnrétti, að móta stefnu sem í senn styrkir atvinnulífið, reisir íslenskt efnahagslíf úr öskustónni og kemur í veg fyrir að þeir atburðir sem hér gerðust í hruninu geti endurtekið sig," segir formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni segir að þetta verkefni verði ekki leyst farsællega nema að Sjálfstæðisflokkurinn standi þar sterkur að baki.
Skapa traustan rekstrargrundvöll fyrir orkufrekan iðnað
Hann segir að til þess að uppbyggingin geti hafist fyrir alvöru, til að yfirlýsingar um nýja framtíð verði eitthvað meira en innantómir frasar þurfi að taka djarfar ákvarðanir, ákvarðanir sem umbylta þeirri stöðnun sem nú ríkir í stjórnkerfinu og efnahagslífinu.
„Það mikilvægasta sem efnahagur Íslands þarfnast til framtíðar er fjölbreytt og vaxandi atvinnulíf á sterkum grunni. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur atvinnulífsins í víðasta skilningi þess orðs. Við munum styðja við bakið á stóru grunngreinunum okkar sem eru svo mikilvægar fyrir land og þjóð.
Við viljum skapa traustan rekstrargrundvöll fyrir orkufrekan iðnað og tökum skýra stefnu gegn fyrningarleiðinni í sjávarútveginum um leið og við vinnum að endurbótum á fiskveiðistjórnarkerfinu. Og það má ekki gleymast að standa vörð um lítil og meðalstór fyrirtæki sem berjast nú í bökkum gegn efnahagssamdrætti, vonlausri samkeppnisstöðu við fyrirtæki í eigu bankanna og síðast en ekki síst gegn þrúgandi skattahækkunum ríkisstjórnarinnar.
Þessi fyrirtæki eru gríðarlega mikilvæg fyrir framtíð efnahagslífs þjóðarinnar. Þau mynda grunninn að þjónustu og iðnaði, bæði hér á höfuðborgarsvæðinu og ekki síður á landsbyggðinni, þar sem hvert starf sem tapast getur hrakið heila fjölskyldu burt úr byggðalaginu. Þessum fyrirtækjum þarf að skapa aðstæður til að vaxa og dafna, því að á þeim byggir atvinna, lífsafkoma og von tugþúsunda Íslendinga. Hjarta atvinnulífsins er fólkið, sem knýr áfram fyrirtækin í landinu. Fólkið er mikilvægasti hlekkurinn í framleiðslukeðjunni sem skapar þjóðinni þau verðmæti sem gera okkur kleift að byggja hér öflugt og stöðugt samfélag. Sjálfstæðisflokkurinn er og verður bakhjarl þessa fólks, við trúum á það að virkja kraftinn í fólkinu í landinu.
Og hvort sem um er að ræða sjómenn eða bændur, iðnaðarmenn eða sjálfstæða atvinnurekendur, forritara eða fiskverkafólk þá er þetta fólkið sem Sjálfstæðisflokkurinn vinnur fyrir til að skapa verðmæti, til að skapa tekjur, til að gera fólki kleift að eignast húsnæði á mannsæmandi kjörum, til að sjá til þess að mánaðarlaunin dugi fyrir framfærslu fjölskyldunnar, til að skapa atvinnutækifæri og standa þannig undir því öfluga velferðarkerfi sem við höfum byggt hér upp. Það kæru sjálfstæðismenn, er að vera flokkur atvinnulífsins," sagði Bjarni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.