Strandaglópar í Rotterdam

Fimm farþegar Iceland Express urðu strandaglópar flugvellinum í Rotterdam í gærkvöldi eftir að skilaboð um að fluginu þeirra hefði verið flýtt rötuðu ekki rétta leið. Að sögn Iceland Express er verið að skoða hvers vegna upplýsingarnar skiluðu sér ekki.

Vélin átti upphaflega að fara í loftið kl. 22:40 að staðartíma. Fluginu var hins vegar flýtt um átta og hálfa klukkustund, eða til klukkan 14:15.

Talsmaður Iceland Express segir í samtali við mbl.is að allir farþegarnir utan fimm hafi fengið upplýsingar um breyttan tíma. Skilaboð um breytingar séu send til farþega með sms-skeytum eða tölvupósti. Það liggi fyrir að skilaboðin hafi verið send en af einhverjum ástæðum hafi þau ekki ratað rétta leið.

Þá hafi farþegunum verið útveguð gisting um nóttina og þeir fluttir til London á kostnað fyrirtækisins. Farþegarnir hafi svo átt bókað flug frá Gatwick-flugvelli til Íslands. Vélin lenti nú á þriðja tímanum. 

Iceland Express segir að flugferðum hafi verið flýtt með þessum hætti áður, en það heyri til undantekninga. Fyrirtækið flýgur einu sinni í viku á milli Rotterdam og Íslands.

„Reddaðist á endanum“

Andri Ólafsson segir í samtali við mbl.is að konan sín hafi verið ein af þeim sem misstu af fluginu í gær. Hún var mætt á flugvöllinn um klukkan 20 í gærkvöldi eftir um tveggja tíma lestarferð frá Amsterdam. Hann segir tengdaföður sinn hafa náð sambandi við starfsmann hjá Iceland Express í gærkvöldi, sem gat á endanum útvegað farþegunum gistingu og flug frá Gatwick. Það hafi hins vegar kostað mörg símtöl og tekið talsverðan tíma. Starfsmaður Iceland Express hafi sagt að um mannleg mistök hefði verið að ræða.

„Þetta reddaðist á endanum en það þurfti heilmikið til. Þetta er ekki fyrsta sinn, og þá örugglega ekki í annað sinn, sem þetta gerist,“ segir Andri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert