Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kom inn á eigin störf í ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, Segir hann að menn hafi rætt um störf hans í viðskiptalífinu áður en hann varð formaður Sjálfstæðisflokksins. Að sögn Bjarna er hann með góða og hreina samvisku og hafi unnið störf sín af fullum heilindum.
„Um þá umræðu vil ég segja þetta. Það er auðvelt í því andrúmslofti sem nú ríkir hjá þjóðinni að gera alla hluti tortryggilega. En ég hef góða og hreina samvisku, ég hef alla tíð unnið mín störf í atvinnulífinu af fullum heilindum og vandað mig sem ég hef best kunnað.
Síðast liðið ár hefur verið flokknum erfitt. Þegar ég tók við forystu fyrir Sjálfstæðisflokkinn var stuðningur við flokkinn í sögulegu lágmarki og upp hafa komið mál sem hafa gert það erfiðara að vinna traust almennings á ný. En ég vissi frá upphafi að það yrði ekki létt verk. Traustið verður ekki unnið með einu tilsvari, einni afsögn eða einu frumvarpi. Það er langtímaverkefni sem krefst þolinmæði."
Vill breyta fyrirkomulagi við formannskjör
Að sögn Bjarna finnst honum eðlilegt að breyta fyrirkomulagi við formannskjör í flokknum. Hann telur eðlilegt að öllum flokksmönnum verði gefinn kostur á að taka þátt í slíku kjöri, til að mynda tveimur vikum fyrir landsfund.
„Ég tel að formann flokksins ættu allir skráðir Sjálfstæðismenn að geta kosið. Það væri opið og lýðræðislegt. Það færi vel á því að kjör formanns færi fram í öllum félögum landsins tveimur vikum fyrir landsfund og kosið væri milli þeirra sem gefið hafa kost á sér."
Vill gera þjóðinni gagn
Bjarni segist hafa helgað sig þessu verkefni sem flokkurinn hefur unnið að og er búinn undir langa baráttu.
„Ég, eins og við öll, tek þátt í stjórnmálastarfi af einfaldri ástæðu: Ég vil gera þjóðinni gagn, og ég veit að mesta gagn sem við getum unnið þjóðinni er að tryggja að sjálfstæðisstefnan muni aftur njóta þess trausts sem hún hefur lengst af notið.
Fyrir ári síðan gengum við í gegnum erfiðustu kosningar í sögu Sjálfstæðisflokksins. Það ár sem liðið frá þeim kosningum hefur einkum snúist um uppgjör við fortíðina og aðdraganda bankahrunsins. Við því mátti búast.
Það getur enginn haldið því fram að við höfum ekki horfst í augu við það sem úrskeiðis fór," segir formaður Sjálfstæðisflokksins.
Glannaskapur, lögbrot og siðleysi var aldrei í boði Sjálfstæðisflokksins
Hann segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi viðurkennt að rammi viðskiptalífsins var ekki nægjanlega sterkur og hann hafi leyft ríkisbákninu að þenjast út. „ Við höfum fyrir löngu gengist við ábyrgð á þessu.
En glannaskapur, lögbrot og siðleysi í viðskiptalífinu var aldrei í boði Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn átti frumkvæði að því að rannsóknarskýrslan var unnin og við tökum niðurstöðum skýrslunnar alvarlega. Ég legg áherslu á að draga lærdóm af henni. Skýrslan er til umfjöllunar hjá þingnefnd og við tökum fullan þátt í því starfi. Jafnframt var að okkar frumkvæði komið á fót embætti sérstaks saksóknara og við höfum haft forgöngu um breyttar reglur um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda," segir formaður Sjálfstæðisflokksins.
Hefur endurgreitt styrki en ekki Samfylkingin
Bjarni segir að það hafi verið sitt fyrsta verk sem formaður að taka ákvörðun um að endurgreiða háa styrki til flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur endurgreitt ofurstyrki. Samfylkingin tók á móti tugmilljóna styrkjum sem hún hefur viðurkennt að hafi verið óeðlilega háir, en hefur ekki endurgreitt eina krónu, segir Bjarni.
Hefur fengið sinn skammt af gagnrýni
Hann segist hins vegar vita að enn eru margir sem eru ósáttir við flokkinn sinn. Ósáttir við okkar þátt í hruninu og við það hvernig okkur hefur tekist til í uppgjörinu.
„Ég hef fengið minn skammt af gagnrýni og hlusta eftir því sem sagt er. Ég legg allt upp úr því að eiga hreinskiptin samtöl við flokksmenn og ég kann að meta það þegar men tala hreint út við mig," segir Bjarni.