Auðlindir verði almannaeign

Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, nefndi í ræðu sinni á flokksþingi Samfylkingarinnar sem nú stendur yfir þau fjögur mál sem hún segir verða helstu verkefni Samfylkingarinnar á næstu misserum. Að festa auðlindirnar sem almannaeign í stjórnarskrá. Að ljúka viðræðum við ESB, að þjóðin fái nýtt fiskveiðistjórnunarkerfi og þjóðin fái nýja stjórnarskrá.

„Ég nefni ESB í þessu sambandi – eitt mikilvægast mál næstu ára. Samfylkingin er eini flokkurinn sem hefur skýra stefnu í þessu máli en aðrir flokkar, þrátt fyrir skiptar skoðanir innan þeirra raða berjast í raun gegn þessu grundvallar hagsmuna máli Íslands.

Ég nefni átökin um náttúruauðlindir Íslands – vatnið, jarðhitann, fiskinn og aðrar gjafir náttúrunnar. Skynsamleg nýting þessara auðlinda, samfara réttlátri skiptingu arðsins meðal þjóðarinnar, er eitt af stærstu verkefnum stjórnmálanna á komandi árum. Þá vakt verðum við jafnaðarmenn að standa af einurð – mun betur en við höfum gert á undanförnum árum.

Íhaldið hefur allt of lengi komist upp með að standa í vegi fyrir því að risastór hagsmunamál þjóðarinnar nái fram að ganga. Það á ekki síst við um að auðlindirnar verði bundnar í stjórnarskrá sem sameign þjóðarinnar.
Nú er hinsvegar okkar tími kominn - sem forystuafl í ríkisstjórn að ná þessu markmiði," segir Jóhanna.
Hún vill að Samfylkingin heiti því að það verði í forgangi að festa auðlindirnar sem almannaeign í stjórnarskránna áður en næst verður gengið til kosninga.

„Heitum því að stýra umsóknarferlinu við ESB í farsæla höfn.
Heitum því að þjóðin fái nýja stjórnarskrá á vakt okkar í stjórnarráðinu .
Heitum því, góðir félagar, að þjóðin fá nýtt sanngjarnt fiskveiðistjórnunarkerfi sem þjóni almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum á meðan við stýrum þessari þjóðarskútu.

Öll þessi mál eigum við að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslum. Um þau á þjóðin að kveða upp sinn dóm.

Þessi fjögur mál verða okkar stóru verkefni og markmið á næstu misserum," segir Jóhanna Sigurðardóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka