Harmar atburðinn

Guðmundur Týr Þórarinsson, forstöðumaður Götusmiðjunnar
Guðmundur Týr Þórarinsson, forstöðumaður Götusmiðjunnar Valdís Þórðardóttir

Guðmundur Týr Þórarinsson, forstöðumaður Götusmiðjunnar, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Braga Guðbrandssonar í frétt mbl.is í morgun. Guðmundur segir það ekki rétt að Barnaverndarstofa hafi heimild til að standa að slíkri rannsókn.

„Bent er á að hvorki í barnalögum né heldur barnaverndarlögum
er að finna ákvæði sem heimilar Barnaverndarstofu að standa að rannsókn af þessu tagi. Ljóst er að á allan hátt var Barnaverndarstofa upphaf og endir rannsóknarinnar og stýrði henni alfarið. Í 38. gr. Barnaverndarlaga er kveðið á um að stjórnsýslulög gildi um starfsemi Barnaverndarstofu og hafa önnur lög ekki að geyma lagaheimild Barnaverndarstofu til handa til að framkvæma rannsókn sem þessa,“ segir í yfirlýsingu Guðmundar.

Þá segir Guðmundur að ummæli Braga um að hann hafi sjálfur viljað hætta störfum við rekstur Götusmiðjunnar og að málið eigi sér langan aðdraganda stangist á við orð Braga á fundi í gær.

„Hins vegar upplýsist það að nokkrir starfsmenn, að undirlagi þess sem var vikið úr starfi á miðvikudag, rituðu Braga bréf þar sem þeir lýstu áhyggjum sínum um mín störf. Á fundi sem haldinn var þann 19. maí sl. lagði lögfræðingur minn fram kröfu fyrir mína hönd um að rannsókn færi fram af hálfu Barnaverndarstofu vegna ásakana sem fram komu í bréfinu sem byggði á reglum stjórnsýsluréttarins og ákvæðum fyrirliggjandi samnings við Götusmiðjuna.“

Hafi Bragi talið það óþarft en lýst því yfir að hann hefði áhuga á að kaupa Götusmiðjuna. Samningaviðræður hafi þá hafist sem hafi endað með tilboði frá Braga, sem Guðmundur hafi tekið.

Samkvæmt íslenskum lögum teldist þar með kominn á samningur sem Bragi hafi upplýst eftir á að hann hyggðist ekki standa við.

„Sú atburðarrás sem síðan fór af stað og endaði með brottflutningi
barnanna í gær er alfarið að undirlagi Barnaverndarstofu sem hafði róið í
starfsfólki mínu á bak við mig og lofað þeim störfum annars staðar, þ.m.t.
þessum tiltekna starfsmanni sem var vikið af staðnum.“

Yfirlýsing Guðmundar endar á orðunum: „Ég harma þann atburð sem fram fór í gær og fullvissa alla um að hvorki ég né starfsfólk á vegum Götusmiðjunnar hefur nokkurn tíma beitt skjólstæðinga Götusmiðjunnar ofbeldi, hvorki líkamlegu né andlegu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka