Mega ekki láta undan þrýstingi

Af flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag.
Af flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í dag. mbl.is/Kristinn

Flokksstjórn Samfylkingarinnar samþykkti á fundi sínum í dag tvær ályktanir um fiskveiðistjórnun. Þess var krafðist að ríkisstjórn Samfylkingar og VG framfylgdi ákvæðum í  samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fiskveiðar, þjóðareign á auðlindum og mannréttindi.

„Fundurinn ítrekar að farin verði sú leið sem fram kemur í samstarfsyfirlýsingunni og ekki verði látið undan þrýstingi sérhagsmunaaðila,“ segir í ályktuninni.

Fundurinn sagðist hafna hugmyndum um að núverandi handhafar fiskveiðiheimilda fái sérstök forréttindi til áframhaldandi nýtingar kvótans næstu ár.

„Fundurinn krefst til þess að ríkið fyrir hönd þjóðarinnar verði hinn eini sanni eigandi fiskveiðiauðlindarinnar og sjái um að leigja auðlindina til þeirra sem vilja nýta hana á jafnréttisgrundvelli og grundvelli mannréttinda og fulls jafnræðis verði gætt gagnvart atvinnufrelsi,“ segir einnig í sömu ályktun.

Þar að auki samþykkti flokksráðið ályktun þess efnis að tillaga til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíðarskipan íslenskra fiskveiðistjórnar var lögð fram á Alþingi 31. mars s.l. yrði þegar í stað tekinn til afgreiðslu á Alþingi.

„Flokksstjórnarfundurinn telur að með því að vísa þessu máli til þjóðarinnar þá geti þjóðin beint milliliðalaust sagt sína skoðun og auðveldað stjórnmálamönnum eftirleikinn,“ segir í ályktuninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert