Óþarfi að sundra flokksmönnum

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Eyþór Árnason

Það var hart tekist á á landsfundi Sjálfstæðislokksins í dag, þegar málefni Evrópusambandsins báru á góma. Mikill hiti var í salnum þegar ályktun um Evrópusambandið var rædd og gengu ósáttir landsfundarmenn á dyr, þegar niðurstaða fundarins lá fyrir.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður og stjórnarmaður í samtökunum Sjálfstæðir Evrópumenn, er ósátt með niðurstöðu fundarins. „Það gefur auga leið að ég er langt frá því að vera sátt,“ segir Ragnheiður.

„Ég hefði talið að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti á öllu öðru að halda núna en að sundra fólki. Ég er ekki að ætlast til þess að fólk fari frekar á mína skoðun heldur en ég á þeirra, en ég held að minn flokkur þurfi á ýmsu öðru að halda núna heldur en sundrungu,“ segir Ragnheiður.

Hún segir að niðurstaða fundarins sé langt frá því sem evrópusinnar innan flokksins hafi vonast eftir. Niðurstaðan sé ekki einu sinni málamiðlun. „Málamiðlun er málámiðlun, þetta er ekki málamiðlun. Þetta sem samþykkt er í dag, er víðs fjarri skoðunum okkar evrópusinna.“

Þingmaðurinn segist hafa heyrt af því að evrópusinnaðir sjálfstæðismenn hyggi á flótta úr flokknum. Sjálf kveðst hún þó ekki ætla gefast upp í baráttu sinni innan flokksins. „Á nákvæmlega sama hátt eins og aðrir standa á sínum skoðunum þá stöndum við sem höfum þessa skoðun á henni, það er alveg ljóst.“

Í umræðum um stjórnmálaályktun flokksins lagði Bjarni Benediktsson, formaður, til að landsfundur samþykkti tillögu þeirrar nefndar sem unnið hafði að ályktuninni. Landsfundi þóttu þau drög ekki nógu afgerandi mótfallin aðild að Evrópusambandinu. Ragnheiður kveðst ánægð með tilraun Bjarna, sem hún segir hafa verið til þess fallin að sameina ósammála fylkingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert