Pétur vill formanninn

Pétur H. Blöndal
Pétur H. Blöndal Mbl.is

Alþingismaðurinn Pétur H. Blöndal hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti formanns Sjálfstæðisflokksins. Gengið verður til kosninga á landsfundi flokksins eftir hádegi í dag. 

Allt virtist benda til þess að Bjarni Benediktsson myndi ekki verða fyrir áhlaupi á landsfundi Sjálfstæðisflokksins núna um helgina. Það virðist ekki ætla að rætast og hefur heldur betur færst fjör í leika.

Erfitt er að greina hvernig frambjóðendurnir standa með svo stuttum fyrirvara. Það er ljóst að formannsslagurinn mun setja svip sinn á þennan síðari dag landsfundar.

Aðeins einu sinni áður hefur borist framboð gegn sitjandi formanni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það var árið 1991, þegar Davíð Oddsson bauð sig fram gegn formanninum á þeim tíma, Þorsteini Pálssyni.

Einnig verður kosið um varaformann á fundinum. Þar eru í framboði þær Ólöf Nordal, þingmaður og Lára Óskarsdóttir. Hin síðarnefnda ákvað fyrir stuttu að gefa kost á sér og þar með taka slaginn gegn Ólöfu sem lýsti yfir framboði fyrir nokkru síðan.

Pétur H. Blöndal hefur setið á þingi í fimmtán ár. Hann er með doktorspróf frá Kölnarháskóla og starfaði meðal annars sem kennari áður en hann settist á þing. Pétur var einnig forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna og starfaði við tryggingafræðilega ráðgjöf og útreikninga fyrir lífeyrissjóði og einstaklinga áratugum saman. Hann var einnig framkvæmdastjóri Kaupþings hf. á árunum 1984-1991.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert