Tekist á um jafnrétti í Sjálfstæðisflokknum

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll. Heiðar Kristjánsson

Hart var tekist á um jafnréttisstefnu Sjálfstæðisflokksins, sem samþykkt var í miðstjórn flokksins hinn 23. júní sl., á landsfundi sem nú stendur yfir. Í pontu stigu sjö karlar og þrjár konur, og fóru margir mjög neikvæðum orðum um stefnuna.

Í stefnunni er t.d. talað um að markmið flokksins sé að stuðla að jafnri stöðu kynjanna og að við skipan í nefndir og ráð á vegum flokksins skuli stefnt að „jöfnum hlut kvenna og karla alls staðar þar sem því verður við komið.“ 

Hæfileikar ráði för, ekki kynferði

Fyrstur tók til máls Kjartan Vídó, sem gagnrýndi harðlega jafnréttisstefnuna og sagði Sjálfstæðisflokkinn hljóta að leggja áherslu á að hæfileikar ráði för, en ekki kynferði.

Viðar Freyr Guðmundsson tók næstur til máls og sagðist lesa „kynjakvóta“ út úr stefnunni og bætti því við að engan afslátt ætti að gefa á þá kröfu að fagþekking væri látin ráða við skipan í nefndir og ráð. Sagði hann stefnuna algjöra rökleysu.

Ólafur Hannesson kallaði stefnuna bull, reif blaðið sem hún var rituð á, og sagði hana ekki samrýmast stefnu flokksins.

Einnig var gagnrýnt að ekki skyldi minnst á t.d. einstaklinga með erlent ríkisfang í stefnunni og var því haldið fram að ekki væri um jafnréttisstefnu, heldur kynjastefnu, að ræða.

Sagði eitthvað að í flokknum

Eftir að töluverð gagnrýni hafði verið sett fram á stefnuna steig Illugi Gunnarsson í pontu og hélt mikla ræðu þar sem hann sagði jafnréttismálin vera eitt mesta hagsmunamál sem Sjálfstæðisflokkurinn standi frammi fyrir. „Það hefur valdið mér vaxandi heilabrotum hvernig stendur á því að ... skipting embætta á milli karla og kvenna hefur ekki lagast nógu hratt. Og það er alvöru mál.“

Þá sagði hann að alls ekki væri verið að leggja fram kynjakvóta, né falla frá þeirri kröfu að hver og einn einstaklingur eigi að vera metinn að verðleikum, heldur einmitt verið að fylgja þeirri kröfu eftir.

„Við hljótum að horfast í augu við það, að það er eitthvað að í flokknum,“ sagði Illugi um hina ójöfnu kynjaskipinu í ráðum á nefndum á vegum Sjálfstæðisflokksins.

Ekki róttækur femínismi

Erla Ósk Ásgeirsdóttir benti á að flokkurinn hafi ávalt verið á móti kynjakvótum og barðist gegn lögum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Fagnaði hún stefnunni sem væri í anda flokksins.

Tryggvi Þór Herbergsson, þingmaður, sagði stefnuna hógværa og samrýmast vel þeim markmiðum sem flokkurinn vildi stefna að. Ekki væri um að ræða róttækan femínisma. „[Stefnan] er akkúrat í anda Sjálfstæðisflokksins sem byggir á frelsi einstaklingsins og því að einstaklingurinn eigi að fá að njóta sín.“

Breytingartillaga samþykkt

Mjótt var á mununum þegar kosið var um breytingartillögu Hallgríms Viðars Arnarssonar. Var hún naumlega samþykkt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka