Snærós Sindradóttir, formaður Ungra Vinstri-grænna á höfuðborgarsvæðinu, segir ræðuna sem hún hélt á flokksráðsfundi VG á föstudag hafa verið neyðarúrræði. „Það er meira en að segja það að standa upp á fundi og halda reiðilestur yfir fólki sem hefur 40 ára lengri reynslu en ég í pólitík, og mörgum finnst það ósvífið líka.“
„Það er skammarlegt að horfa uppá fullorðið fólk rífast eins og hundar og
kettir án þess nokkurn tímann að útkljá sín ágreiningsefni við hvert
annað persónulega,“ sagði Snærós m.a. í ræðunni.
Hún segir ræðuna hafa verið flutta af einlægni en hún hafi lengi reynt að koma þeim skilaboðum til flokksfélaga sinna að þeir þyrftu að temja sér betri samskiptamáta.
„Ég hef sent pósta og haldið pepp-ræður og reynt að segja fólki að tala saman og vera vinir, það séu allir jafnir. En þótt það þurfi tvo til að deila þá finnst mér t.d. Lilja Mósesdóttir, Ögmundur Jónasson og jafnvel fleiri ganga of harkalega fram í deilum og oft ekki á sanngjarnan hátt.“
Í ræðu sinni gagnrýndi Snærós ákveðinn hóp í flokknum sem bæri ágreining milli flokksfélaga á torg í fjölmiðlum og á Internetinu, ekki síst með hálfkveðnum vísum á Fésbókinni.
„Það er óheiðarlegt að gefa í skyn á fésbókinni, verandi með hátt í tvöþúsund vini, að hinn og þessi hafi ekki verið nógu góður við sig og leyfa svo öllum vinunum að geta í eyðurnar.“
Aðspurð hvort sundrung sé í flokknum segir Snærós flokksmeðlimi sammála um málefni og stefnu VG, en margir séu óánægðir með hvernig hlutirnir hafi þróast og eigi erfitt með að kyngja því að í samsteypustjórn þurfi að gera málamiðlanir.
„Ég, persónulega, er ekki ein af þeim, ég geri mér grein fyrir að það þurfi að gera málamiðlanir. Mér finnst þær ekki þægilegar en svona er lífið og svona hagar fullorðið fólk sér, það kann að tala saman,“ segir Snærós sem er 18 ára að aldri.
Hún segir ræðuna hafa komið frá eigin brjósti og hafi ekki verið að tala fyrir hönd UVG á höfuðborgarsvæðinu.