Funda um dómana

Af borgarafundi í Háskólabíó.
Af borgarafundi í Háskólabíó. Árni Sæberg

Opnir Borgarfundir hafa skipulagt Borgarafundi um málefni nýfallins Hæstaréttardóms í Iðnó næsta mánudag. Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að ætlunin sé að vekja upp rökræna umræðu um afleiðingar nýfallins hæstaréttardóms fyrir heimili, fjármálafyrirtæki og ríkissjóð.

Í tilkynningunni segir einnig að samtökin hafi meðal annars boðið efnahags- og viðskiptaráðherra, forstjóra Fjármálaeftirlitsins og framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja. Hinir tveir síðarnefndu hafa báðir sagst ekki ætla að mæta. Ráðherra hefur ekki enn svarað hvort hann mæti.

Lilja Mósesdóttir, þingmaður, Guðmundur Andri Skúlason, talsmaður Samtaka lánþega og Ragnar Baldursson, Hæstaréttarlögmaður, hafa öll staðfest komu sína. Einnig verður öllum alþingismönnum og ráðherrum boðið að koma ásamt öllum forstjórum banka og fjármögnunarfyrirtækja.

Samtökin hvetja alla sem láta þetta mál sig varða til að mæta og kynna sér málið frá fyrstu hendi.

Ætlunin er að Samtök fjármálafyrirtækja og Samtök lánþega verði með stutta framsögu ásamt ráðherra og að þeim framsögum loknum verði fyrirspurnir úr sal. Fundarform verður með sama hætti og áður hjá Opnum Borgarfundum.

Fundurinn hefst klukkan 20:00 þann 28. júní næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert