Ók á 196 km hraða í Ártúnsbrekku

Um hálf tvö í nótt var ökutæki mælt á 196km/klst í Ártúnsbrekku þar sem hámarkshraði er  80km/klst.  Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum á staðnum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt og voru 126 verkefni skráð í dagbók hennar sem er vel yfir meðallagi.

Ökumaðurinn ók ekki undir áhrifum vímuefna. Hann var umsvifalaust sviptur ökuréttindum á staðnum. Ökumaðurinn er að sögn lögreglu ungur að árum, eða rétt undir tvítugu. 

Lögregla var við eftirlit gegn ölvunarakstri á Kringlumýrarbraut í nótt og voru 100 ökutæki stöðvuð. Fjórir ökumenn voru ölvaðir.  Um var að ræða samstarfsverkefni nokkurra svæðisstöðva á höfuðborgarsvæðinu.

Þrír af þessum ökumönnum voru sviptir ökuréttindum til bráðabirgða.  Sá fjórði reyndi að stinga lögreglu af en þegar hann varð var við vegartálma lögreglu. Þá tók hann á það ráð að aka á  móti umferð að Bústaðavegi frá Kringlumýrarbraut.  Ökumaður var handtekinn stuttu síðar og gistir nú fangageymslur þar til hann verður yfirheyrður vegna málsins.

Loks var sá fimmti handtekinn í Grafarvogi en sá hafði orðið valdur að umferðaróhappi.
 
Um klukkan 05:00 var ökumaður handtekinn í vesturbæ Reykjavíkur en hann var undir áhrifum fíkniefna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka