Ökumaður á þrítugsaldri reyndi að flýja undan lögreglunni á Selfossi í nótt, þegar það átti að stöðva hann. Lögreglan þurfti að elta ökumanninn innanbæjar, þar sem hann ók á þreföldum hámarkshraða.
Eftirförin stóð yfir í nokkrar mínútur. Í öllum æsingnum ók flóttamaðurinn út af veginum og klessti á skilti. Að lokum staðnæmdist bifreiðin fyrir utan hús. Lögreglan handtók ökumanninn fyrir utan það sem talið er heimili hans. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og er nú vistaður í fangageymslu lögreglunnar.
Ökumaðurinn var á leið frá Eyrarbakka þegar hann virti ekki stöðvunarmerki. Hann ók Gaulverjabæjarveg í átt að Stokkseyri, hvar hann náðist að lokum.