Þann 17. júní síðastliðinn fundu lögreglan og tollgæslan 20 lítra af amfetamínbasa í þýskri bifreið um borð í Norrænu. Ökumaðurinn var þýsk kona á fimmtugsaldri. Með henni var önnur þýsk kona og fimm ára gamalt barn hennar. Samkvæmt sérfræðingum verður úr þessu magni að lágmarki rúmlega 264 kg af amfetamíni.
Konurnar eru nú í gæsluvarðhaldi lögreglunnar. Barnið var fyrst um sinn sett í vörslu barnaverndarnefndar en ættingjar þess sóttu það síðar.
Vökvinn sem fannst er tilbúinn til vinnslu, að sögn lögreglunnar og krefst ekki sérþekkingar að búa til efni úr basanum. Samkvæmt sérfræðingum verður úr þessu magni að lágmarki rúmlega 264 kg af amfetamíni. Miðað er þá við 5,8-5,10% styrkleika, sem er almennur styrkleiki í amfetamíni í umferð á Íslandi.
Þetta er langmesta magn af amfetamíni sem lögreglan hefur komist yfir og er þrisvar til fimm sinnum meira en áður hefur verið gert upptækt. Samkvæmt rannsóknum frá SÁÁ er ársneysla á Íslandi er um 300 kg. Það er því óhætt að segja að þetta sé stór hluti af ársneyslunni.
Lögreglan segir þetta vera mikinn áfanga. Ef efnin hefðu komist í umferð hefði verðið orðið lægra og þ.a.l. hefði aðgangur neytenda auðveldast umtalsvert. Þessi efni voru handlögð og því var komið í veg fyrir neyslu, veikindi, dauðsföll, að því er fram kom í máli lögreglunnar á blaðamannafundi í dag.