Tækni sem íslenskur hugvitsmaður hefur hannað og þróað til að ná olíu upp úr sjó og vötnum er nú til skoðunar hjá olíufyrirtækinu BP, en hún kemur til greina við olíuhreinsun í Mexíkóflóa. Ólafur Ögmundsson yfirvélstjóri segir það mikinn heiður að tæknin sé nú til skoðunar.
„Þetta er svakalega mikil upphefð fyrir mig að komast þarna inn á efsta borð. Það er náttúrulega ákveðinn viðurkenning á þessu,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is. Hann hefur starfað á norskum og sænskum olíu- og efnaflutningaskipum í áraraðir.
Tækið kallast ELI 2000 og segir Ólafur að hugmyndin sé um 15 ára gömul. ELI er nú til skoðunar hjá fyrirtækinu O'Brien's, sem þjónustar BP við hreinsunarstarfið.
„Þetta byggir á svokölluðu vortex-effect, þ.e. við myndum yfirborðsstraum sem dregur í sig yfirborð sjávar eða vatns,“ segir Ólafur. Þetta sé í raun eins og hvirfilvindur sem sé myndaður í vatni. Yfirborðið dælist svo beint upp í skip eða tanka. Olían er síðan látin standa og skilur hún sig frá vatninu á um hálftíma. Þá segir Ólafur að tækið geti afkastað um 1.500 rúmmetrum á klukkustund.
Ólafur segist hafa fengið tveggja milljóna króna styrk frá Alþingi fyrir um nokkrum árum til að þróa tæknina. Hugmyndin hafi síðan verið send BP sem greindi Ólafi nýverið frá því að fyrirtækið sé að skoða tæknina nánar. „Þetta er eins og að vera í undanúrslitum, “ segir Ólafur og bætir að mörg þúsund hugmyndir berist á borð fyrirtækisins árlega og það sé því heiður að ná svona langt.
Hann segir að tækið sé einfalt í smíði en afkastamikið. Hægt sé að nota það nánast hvar sem er, t.d sé hægt setja það á skip og vinnuvélar. Þá sé engin þörf á rafstöð eða öðru slíku þar sem tækið þurfi ekki rafmagn.
Það hefur verið prófað hér á landi í samstarfi við Slökkvilið
höfuðborgarsvæðisins og í Bretlandi í samstarfi við fyrirtækið Oil Spill Response Limited, með ágætum árangri.
Ólafur segir að það muni koma fljótlega í ljós hvort BP muni gera tilboð eður ei.