Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að rapparanum Erpi Eyvindarsyni yrði ekki skipaður réttargæslumaður vegna rannsóknar lögreglu á líkamsárás sem Erpur kærði rapparann Móra fyrir.
Eins og mbl.is sagði frá í febrúar kom til átaka milli Erps og Móra í höfuðstöðvum 365 miðla þegar rappararnir mættu í viðtal á útvarpsstöðinni X-inu.
Móri, sem heitir fullu nafni Magnús Ómarsson, dró upp hníf og ógnaði Erpi sem varðist með skúringamoppu og komst undan. Hann kærði árásina samdægurs til lögreglu.
Í kröfunni sem lögmaður Erps setti fram segir að árásin hafi verið fólskuleg og „..mildi að ekki hlaust verra af. Ef komi til ákæru geti háttsemi árásarmannsins talist tilraun til manndráps...“
Þá kemur fram að Erpur hafi hlotið verulegt tjón á andlegu heilbrigði og vísað til vottorðs Áfallamiðstöðvar Landspítala-háskólasjúkrahúss, þar sem segir að „...sóknaraðili hafi fengið áfallahjálp eftir atvikið. Sóknaraðili hafi greinileg merki um áfallastreituviðbrögð, sem lýsi sér í andlegri vanlíðan, ofurárvekni og ofurviðbrögðum við áreiti, sem minni á atburðinn.“