Gefur skilaboðunum gaum

Gísli Marteinn Baldursson.
Gísli Marteinn Baldursson.

Gísli Marteinn Baldursson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, segir í yfirlýsingu á heimasíðu sinni að hann muni gefa góðan gaum þeim skilaboðum sem kjósendur flokksins hafi sent sér með útstrikunum í borgarstjórnarkosningunum og muni reyna að bæta það sem betur megi fara í störfum sínum.

Hins vegar hafi útstrikanirnar langt í frá einhver formleg áhrif.

„Á landsfundi sem haldinn var í miðri prófkjörsbaráttunni, þegar auglýsingaflóðið stóð sem hæst, var mikil ánægja með þetta stóra prófkjör sem 12.500 Reykvíkingar tóku þátt í. Svei mér þá ef sjálfstæðismenn hældust ekki svolítið um af ‘glæsilegu prófkjöri’ og báru hróðugir saman við prófkjör hinna flokkanna.“

„Raunar hafi þau verið svo slæm að þeir sem kepptu um efstu sætin, og ráku því stærstu og dýrustu baráttuna, eigi að hugsa sinn gang. Engar áhyggjur eru viðraðar í þessari ályktun um að prófkjörin hafi skaðað kjörna fulltrúa í störfum sínum, eða að þeir sem lögðu framboðunum lið hafi reynt eða getað haft áhrif á störf okkar sem borgarfulltrúar eða þingmenn.“

Gísli Marteinn segir það ekki hafa verið neina launung að hann hafi ekki haft neina burði til að fjármagna stórt framboð í prófkjörinu 2005. Hann hafi treyst algjörlega á framlög fólks og fyrirtækja og hafi skilað uppgjöri þar að lútandi í nóvember í fyrra.

„Ég fékk vissulega fjárframlög frá fyrirtækjum til að reka prófkjörið 2005, eins og tugir eða hundruð manna og kvenna sem tóku þátt í stjórnmálum þá. Einstakir styrkir til mín voru hvorki í hópi þeirra hæstu, né voru háir styrkir mjög margir. Það er hinsvegar sjálfsagt að allir þeir sem hafa tekið þátt í stjórnmálum horfi inn á við og skoði hvort samviska þeirra sé hrein.

Þá segist Gísli Marteinn ekki hafa fengið neinar lánafyrirgreiðslur, kúlulán né önnur óvenjuleg lán.  Hann bendir á að hann hafi verið kosinn í tvígang til að gera Reykjavík að betri borg og muni nýta öll viðbrögð við störfum sínum, jákvæð sem neikvæð, til að styrkja sig í því starfi. 

Yfirlýsingu Gísla Marteins má lesa í heild sinni á heimasíðu hans.

Gísli Marteinn Baldursson.
Gísli Marteinn Baldursson.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert