Ferðafélagið Útivist hélt sína árlegu Jónsmessuhátíð um helgina í Básum á Goðalandi, með næturgöngu upp á Fimmvörðuháls. Að þessu sinni var brugðið út frá hefðbundinni gönguleið sem hefur verið yfir Fimmvörðuháls frá Skógum og þess í stað lögð áhersla á skoðunarferð á eldstöðvarnar á hálsinum.
Gengið var frá Básum á föstudagskvöldi upp Morinsheiði og Bröttufönn að gígunum Magna og Móða. Þá var haldið niður í Hvannárgil og hrauntungur þar skoðaðar.
Undir morgun kom hópurinn aftur í Bása en veður var stillt og nóttin björt. Á laugardagskvöldinu var haldin vegleg grillveisla með varðeldi og fjöldasöng í fínu veðri.
Að sögn Skúla H. Skúlasonar, starfsmanns Útivistar, er mikill munur á því umhverfi sem blasir við á Markarfljótsaurum og aðstæðum í Básum. Þótt sjá megi öskulag við Gígjökul og næsta umhverfi sé allt aðra sögu að segja í Básum og skóglendinu þar.
Það sé því ástæðulaust fyrir fólk að hika við að ferðast inn í Bása og ganga upp á Fimmvörðuháls
Hins vegar sé rétt að hafa í huga að í norðan strekkingi og þurrviðri má búast við öskufjúki uppi á hálsinum og því enn mikilvægara en áður að skoða veðurspá vel fyrir brottför.
Einnig skyldu menn fara varlega um gosstöðvarnar og fylgja þar stikuðum og merktum leiðum.