Um 800 milljónir vegna eldgosanna

Eldgos í Eyjafjallajökli
Eldgos í Eyjafjallajökli mbl.is/RAX

Rík­is­stjórn­in samþykkti á fundi sín­um síðastliðinn föstu­dag að veita 791,7 millj­ón­ir króna til end­ur­reisn­ar og vegna neyðaraðgerða í kjöl­far eld­gos­anna í Eyja­fjalla­jökli og á Fimm­vörðuhálsi.

Styðja á við upp­bygg­ing­ar­starf á eld­gosa­svæðinu og treysta enn frek­ar störf þeirra sem komið hafa að neyðaraðgerðum, ör­ygg­is­mál­um og end­ur­reisn í kjöl­far ham­far­anna.

Fum­laus viðbrögð þeirra sem eiga hlut að máli

„Eld­gos­in hafa haft víðtæk áhrif á ís­lenskt sam­fé­lag sem og alþjóðleg­ar flug­sam­göng­ur. Viðbrögð þeirra sem hlut eiga að máli hafa verið fum­laus, traust og vel skipu­lögð. Sam­starf bæði inn­an og utan stjórn­sýsl­unn­ar hef­ur verið til fyr­ir­mynd­ar og sýn­ir glöggt styrk­leika þjóðar­inn­ar til að tak­ast á við af­leiðing­ar nátt­úru­ham­fara. Enn eru all­ir í viðbragðsstöðu og fylgj­ast áfram með þró­un­inni á svæðinu," seg­ir í til­kynn­ingu frá for­sæt­is­ráðherra.

Stærsta ein­staka viðbótar­fram­lagið er til Bjargráðasjóðs, 190 millj­ón­ir króna, en heild­ar­kostnaður sjóðsins vegna eld­gos­anna er met­inn á 300 millj­ón­ir króna.

Þá fá Land­græðslan, Vega­gerðin, Veður­stof­an, al­manna­varn­ar­deild Rík­is­lög­reglu­stjóra, lög­gæsl­an, Land­helg­is­gæsl­an, Rauði kross Íslands, Slysa­varn­ar­fé­lagið Lands­björg, Jarðvís­inda­stofn­un Há­skól­ans, Flug­stoðir, heil­brigðis­stofn­an­ir og fleiri um­tals­vert fé til að sinna störf­um sín­um í tengsl­um við eld­gos­in.

Jafn­framt var samþykkt að styðja við bakið á sveit­ar­fé­lög­um á eld­gosa­svæðinu m.a. vegna tíma­bund­inna hús­næðisúr­ræða fyr­ir íbúa í Rangárþingi eystra, Mýr­dals­hreppi og Skaft­ár­hreppi. Lík­legt má telja að Viðlaga­trygg­ing bæti ýms­an til­fallandi kostnað sveit­ar­fé­lag­anna til að mynda vegna hreins­un­ar. Brýn verk­efni á næst­unni verða m.a. við fram­kvæmd­ir og lag­fær­ing­ar á varn­ar­görðum við Markarfljót og Svaðbælisá auk aðgerða við að hefta ösku­fok á svæðinu.

Rík­is­stjórn­in fól fimm ráðuneyt­is­stjór­um að fara yfir all­an kostnað sem tengja mætti neyðaraðgerðum á gossvæðinu í kjöl­far eld­gos­anna. Fjár­fram­lög til stofn­ana byggja á niður­stöðum þeirra og til­lög­um, sem taka mið af því hvaða kostnaður telj­ist óhjá­kvæmi­leg­ur vegna neyðarviðbragða og annarra nauðsyn­legra aðgerða. Hóp­ur­inn starfar áfram þar sem ákveðna þætti þarf að skoða nán­ar á síðari stig­um.
 
Heild­ar­kostnaðarmat vegna tjóns af völd­um eld­gos­anna í Eyja­fjalla­jökli og á Fimm­vörðuhálsi ligg­ur ekki end­an­lega fyr­ir en þó er kom­in nokkuð góð mynd á um­fangið. Hluti kostnaðar af eld­gos­un­um leggst á Viðlaga­trygg­ingu og Bjargráðasjóð sem, eins og að ofan er getið, fékk viðbótar­fram­lag til starf­semi sinn­ar.

Ólíkt kostnaðinum vegna jarðskjálft­ans árið 2008 þá ligg­ur stærst­ur hluti kostnaðar rík­is­sjóðs nú hjá ein­staka stofn­un­um. Við þau út­gjöld ráða þær ekki án viðbótar­fjár­heim­ilda. Hins veg­ar skal nýta fjár­heim­ild­ir árs­ins með for­gangs­röðun verk­efna svo sem frek­ast er kost­ur. Mál er varða tjón ein­stak­linga eða tekjutap rekstr­araðila fara til skoðunar hjá Viðlaga­trygg­ingu og Bjargráðasjóði.

Á næst­unni opn­ar al­manna­varna­deild Rík­is­lög­reglu­stjóra í sam­ráði við ráðuneyt­in að nýju þjón­ustumiðstöð á eld­gosa­svæðinu til að sam­ræma viðbrögð og úr­lausn verk­efna sem framund­an eru í sum­ar og haust. Al­manna­varna­deild ræður verk­efn­is­stjóra til að ann­ast dag­leg­an rekst­ur þjón­ustumiðstöðvar­inn­ar," seg­ir í til­kynn­ingu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka