Ánægja með úthafskarfavertíð

Veiðum frystitogara HB Granda á úthafskarfa á djúpslóð á þessari vertíð er nú lokið. Fjögur frystiskip stunduðu veiðarnar og varð afli þeirra alls um 4.600 tonn. Mun betur gekk að veiða kvótann að þessu sinni en menn áttu von á og gefur það vonandi fyrirheit um að staða karfastofnsins á Reykaneshryggnum sé betri en talið hefur verið.

„Það var mjög góð úthafskarfaveiði allan maímánuð og við náðum að veiða upp í kvótann á mun skemmri tíma en áætlanir gerðu ráð fyrir,“ segir Birkir Hrannar Hjálmarsson, rekstrarstjóri togara HB Granda í viðtali við vef HB Granda.

Að hans sögn eru nú allir fimm frystitogarar félagsins að veiðum inni í lögsögunni en gert var ráð fyrir því að úthafskarfavertíðin stæði í mánuð til viðbótar.

„Vandinn er sá að það er lítið eftir af karfa- og þorskkvóta en við því er brugðist með því að sækja í ufsa, ýsu og grálúðu. Allt er gert til þess að forðast karfa og þorsk og þær tegundir verða aðeins veiddar sem meðafli á öðrum veiðum,“ segir Birkir Hrannar Hjálmarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert