Efast um íslenska lögfræði

mbl.is

Jón Steinsson, lektor í hagfræði við Columbia háskóla í New York, segir þá furðulega skoðun vera nokkuð útbreidda meðal íslenskra lögfræðinga að þótt eitt ákvæði gengistryggðu bílalánssamninganna  hafi verið dæmt ólöglegt eigi öll önnur ákvæði samninganna að standa óbreytt og lántakendur eigi að greiða af lánum sínum samkvæmt þeim ákvæðum. Þetta kemur fram í pistli sem Jón ritar á Pressuna.

„Ekki ómerkilegri lögfræðingur en Magnús Thoroddsen, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, hefur meðal annarra sagt þetta vera sína skoðun. Magnús viðurkennir að íslensk samningalög kveði á um að almennt megi víkja til hliðar samningi vegna atvika sem eiga sér stað eftir að samningur er gerður og samningurinn tekur ekki á. En hann bendir á að íslensk samningalög segi að ekki skuli taka tillit til atvika sem síðar koma til ef þau eru neytenda í óhag. Þar sem neytandinn í þessu tilviki er lántakandi telur hann að ekki megi hrófla við öðrum ákvæðum þessara lánasamninga þótt Hæstiréttur hafi kveðið upp dóm um að eitt algert lykilákvæði þeirra stangist á við lög.

Þessa lögfræði á ég erfitt með að skilja. Magnús virðist byggja röksemdafærslu sína á þeirri hugmynd að hvert ákvæði samnings sé algerlega sjálfstæð eining óháð öðrum ákvæðum sama samnings. Hann telur því að unnt sé að fella úr gildi eitt ákvæði án þess að það hrófli við neinum öðrum ákvæðum samningsins. Og ef atvik hefur áhrif á fleira en eitt ákvæði megi kerfisbundið hrófla við þeim sem íþyngja neytendum en ekki hinum í stað þess að horfa á samninginn sem eina heild og passa að heildaráhrifin af breytingum á samningnum skerði ekki stöðu neytenda.

Ef þetta er íslensk lögfræði þá verð ég að segja að íslensk lögfræði er á villigötum og þarf á róttækum breytingum að halda," skrifar Jón.


Fráleitt að halda því fram að samið hafi verið um 3% raunávöxtun

Hann segir að þegar hann lesi speki íslenskra lögfræðinga finnist honum þeir sumir hverjir ekki sjá skóginn fyrir trjánum.

„Í þeirra augum virðist lögfræði vera algerlega tæknilegs eðlis. Sú hugmynd virðist til dæmis vera ótrúlega vinsæl að eitt rétt svar við öllum lögfræðilegum álitaefnum sé að finna í lögum og öðrum skrifuðum réttarheimildum. Samkvæmt þessu virðist dómari ekki þurfa að búa yfir neinni dómgreind. Starf hans er eins konar útreikningur. Ég er ansi hræddur um að þessi hugsun sé byggð á mikilli einfeldni og hafi slæmar afleiðingar í för með sér," skrifar Jón.

Hann segir algerlega fráleitt að halda því fram að samningsaðilar hefðu gert með sér samning um lán á u.þ.b. 3% nafnvöxtum í íslenskum krónum. Lánveitandinn hefðir klárlega ekki fallist á þess konar samning. Ef Hæstiréttur kemst að þeirri niðurstöðu að túlka eigi þessa samninga með þeim hætti er það bæði óréttlátt og slæmt fordæmi varðandi grundvallaratriði í samningarétti (hvort hvert ákvæði samnings sé sjálfstæð eining) sem mun án efa draga úr hagsæld á Íslandi þegar fram líða stundir.

Pistill Jóns Steinssonar í heild

Ingvar Christiansen viðskiptalögmaður er á öndverði skoðun við Jón í aðsendri grein sem birt er einnig á Pressunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka