Unnið er að því að greina og meta hagræn áhrif skapandi greina á Íslandi á heildstæðan hátt í fyrsta sinn. Í dag var gengið frá samkomulagi við Colin Mercer, alþjóðlegan sérfræðing í hagrænum áhrifum skapandi greina, um að vinna verkið ásamt fræðimönnum við Háskóla Íslands.
Fimm ráðuneyti og Útflutningsráð Íslands fjármagna verkefnið sem unnið er að frumkvæði samráðsvettvangs skapandi greina. Þetta kemur fram á vef menntamálaráðuneytisins.
„Á Norðurlöndunum og í Evrópu hefur sú þróun orðið að skapandi greinar teljast nú sjálfstæður atvinnuvegur og sýna rannsóknir að í honum er einna mestur og hraðastur vöxtur. Þrátt fyrir mikil áhrif og sterka stöðu skapandi greina í íslensku samfélagi er lítið vitað um hvaða vægi og áhrif þær hafa í efnahagslegu samhengi. Helstu vísbendinguna um það er að finna í riti sem Dr. Ágúst Einarsson gaf út árið 2004 og fjallaði um hagræn áhrif íslenskrar tónlistar. Þar kemur m.a. fram að framlag menningar til landsframleiðslunnar er 4% sem er meira en öll starfsemi raf-, hita- og vatnsveitna og nær þrefalt meira en landbúnaður eða ál- og kísiljárnsframleiðsla. Því er ljóst að heildstæð greining á þætti skapandi greina í hagkerfinu er mikilvæg fyrir stjórnvöld þegar kemur að stefnumótun og ákvarðanatöku varðandi atvinnuuppbyggingu,“ segir á vef ráðuneytisins.