Tollstjóri hefur sent Sýslumanninum í Reykjavík beiðni um að fella úr gildi kyrrsetningu eigna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóns Sigurðssonar og Hannesar Smárasonar, í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar í síðustu viku. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Ógildingin kemur í kjölfar úrskurðar Hæstaréttar í síðustu viku þegar kyrrsetning eigna Skarphéðins Berg Steinarssonar var felld úr gildi en skattrannsóknarstjóri krafðist kyrrsetningu á eignum fjórmenninganna í maí, vegna meintra brota FL Group á lögum um virðisaukaskatt.
Í nýrri lagaheimild í lögum um tekjuskatt er kyrrsetning eigna heimiluð
til að tryggja skattgreiðslur og krafðist skattrannsóknarstjóri
kyrrsetningar eigna fjórmenninga á grundvelli hennar.
Skarphéðinn Berg kærði lögmæti kyrrsetningarinnar og komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að í lögum um tekjuskatt væri ekki að finna heimild til kyrrsetningar vegna brota á lögum um virðisaukaskatt.
Snorri Olsen, tollstjóri, sagðist í samtali við mbl.is ekki geta tjáð sig um einstök mál en staðfesti að eftir úrskurð Hæstaréttar hafi embættið sent beiðni til Sýslumannsins í Reykjavík um endurupptöku slíkra mála þar sem kyrrsetning verði felld úr gildi.