„Okkur vantar blóð. Lagerbirgðirnar eru í lágmarki hjá okkur og það má ekkert koma upp á. Það eru stórar ferðahelgar framundan og þetta er það sem við þurfum að grípa til og senda um land allt ef eitthvað gerist,“ segir Sigríður Ósk Lárusdóttir, deildarstjóri hjá Blóðbankanum.
Blóðbankinn hefur sent frá sér neyðarkall þar sem landsmenn eru hvattir til þess að koma í Blóðbankann á næstu dögum og gefa blóð. Sérstaklega er skortur á blóði í blóðflokknum O mínus, svokölluðu neyðarblóði.
Í ákalli sem sent var fjölmiðlum segir að starfsfólk Blóðbankans hvetji fólk til þess að muna eftir því að koma við áður en það fer í frí. Þá segir að virkir blóðgjafar séu sérstaklega beðnir um að koma við í þessari viku.
Þá kemur fram að vegna sparnaðaraðgerða verði blóðbankabíllinn ekki á ferðinni næst fyrr en í lok ágúst.