Segir „sveiattan" við málflutningi Gylfa

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness SteinarH

Vilhjálmur Birgisson, formaður  Verkalýðsfélags Akraness, var meðal þeirra fjölmörgu sem sóttu borgarafund í Iðnó í gærkvöldi. Á vef verkalýðsfélagsins lýsir hann vanþóknun sinni á orðum Gylfa Magnússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra á fundinum með þessum orðum: Sveiattan. 

„Ragnar Baldursson lögmaður sem rak annað dómsmálið fyrir Hæstarétti sagði að dómur Hæstaréttar væri hvellskýr og menn væru að búa til óvissu. Hann sagði að þeir vextir sem væru tilgreindir í lánasamningunum ættu skýlaust að standa óhaggaðir og að dómurinn væri afar skýr.

Það var með ólíkindum að hlusta á ráðherrann svara, því hann hefur ekki talað um að það hafi verið ósanngjarnt að skuldsett heimili þyrftu að horfa upp á gengistryggðu lánin sín hækka um og yfir 100% vegna falls bankanna.  Gylfi Magnússon hefur ekki verið tilbúinn að fara í almennar leiðréttingar á stökkbreyttum höfuðstól gengistryggðra og verðtryggðra lána. En núna þegar fallinn er dómur sem er hagstæður alþýðu þess lands þá talar hann um að það verði að finna sanngjarna niðurstöðu með hagsmuni allra að leiðarljósi. Þetta er ótrúlegur málflutningur í ljósi þess að ráðherrann hefur ekki verið tilbúinn að koma til móts við þann forsendubrest á skuldastöðu heimilanna fyrr en dómur Hæstaréttar féll," skrifar Vilhjálmur á vef Verkalýðsfélags Akraness. 

 Vilhjálmur vísaði einnig í orð Péturs Blöndal, þingmanns Sjálfstæðisflokksins: „Það var einnig afar fróðlegt að hlusta á framsögu Péturs Blöndal þar sem hann sagði skuldara sjálfhverfa og minntist á tap sparifjáreigenda. Pétur sagði einnig að fundarmenn horfðu aðallega á naflann á sjálfum sér.  

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði á fundinum að það væri ekki sæmandi þingmanni að tala niður til fólks með þessum hætti sem væri einungis að fara fram á að dómur frá Hæstarétti væri virtur. Formaður VLFA spurði Pétur einnig hvort það gæti ekki verið staðreynd að hann væri að horfa á naflann á sjálfum þegar hann talaði í sífellu um að verja þurfi fjármagnseigendur í hvívetna. 

Formaður minnti fundarmenn á hvernig ríkisstjórn Íslands hjálpaði fjármagnseigendum þegar bankakerfið hrundi en eins og allir vita þá settu íslensk stjórnvöld 200 milljarða inn í peningamarkaðssjóðina og tryggðu einnig allar innistæður í bönkum. Á þessu sést að íslensk stjórnvöld eru tilbúin til að verja fjármagnseigendur með kjafti og klóm á meðan skuldsettum heimilum er gert að greiða allar sínar skuldir og jafnvel þó umrædd lán standist ekki íslensk lög.

 Það kom fram í máli Gylfa að ef dómur Hæstaréttar stendur þá muni það kosta 100 milljarða það var eins og áður sagði ekkert mál að slá skjaldborg um fjármagnseignendur með því að setja 200 milljarða inn í peningamarkaðssjóðina og tryggja einnig allar innistæður í bönkum.  Svo tala þessir menn um að það þurfi að ríkja sanngirni. Því segir formaður Verkalýðsfélags Akraness við svona málflutningi: Sveiattan."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert