Fréttaskýring: Þingi auðveldað að gagnrýna ráðherra

mbl.is/Jón Pétur

Töluvert hefur borið á því í vetur að þingmenn, jafnt stjórnar sem stjórnarandstöðu, gagnrýni störf Alþingis. Þannig gagnrýndu t.d. þingmennirnir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, Vinstri grænum, Ólöf Nordal, Sjálfstæðisflokki, og Birgitta Jónsdóttir Hreyfingunni, í lok aprílmánaðar að enginn breyting hefði orðið á vinnubrögðum þingsins þrátt fyrir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Segir Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík, það hafa færst í aukana á síðari árum að stjórnarþingmenn gagnrýni störf þingsins. Stykur þingmeirihlutans skiptir þó miklu í því sambandi.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, vonast til að frumvarp til breytinga á þingskapalögum sem hún lagði fram sl. fimmtudag svari gagnrýni þingmanna að einhverju leyti. Í frumvarpinu er lögð fram breyting á nefndarkerfi og starfsháttum þingsins.

„Frumvarpinu er ætlað að styrkja eftirlitshlutverk þingsins,“ segir Ásta. Tillögurnar komi flestar úr skýrslu sem nefnd um eftirlitshlutverk Alþingis skilaði sl. haust. Hluti þeirra eigi ennfremur samhljóm með gagnrýni rannsóknarnefndar Alþingis. Tillagan um að núverandi þingnefndum verði fækkað úr tólf í sex er ein af þeim, en í frumvarpinu er lagt til að skipuð verði að auki sérstök stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Hlutverk nefnda í starfi Alþingis verði þá styrkt, eftirlitshlutverk þeirra aukið, sem og aðgengi að trúnaðarupplýsingum breytt og það aukið. Fækkun nefnda hafi enn fremur í för með sér að flestir þingmenn sitji ekki í nema einni nefnd, í stað 2-4 nú, og þeir geti fyrir vikið haft betri heildaryfirsýn yfir sína málaflokka.

 Styrki stjórnarandstöðu

Eins fái utandagskrárumræður aukið vægi sem hluti af dagskrá þingsins. „Þetta gerir umræðunum hærra undir höfði. Með þessu móti komast málefnin á dagskrá og geta jafnvel endað með þingsályktun. Þingmenn geta þá líka gagnrýnt ráðherra án þess að lýsa á þá vantrausti og með því styrkjum við eftirlitsþáttinn sem er svo mikilvægur í starfi þingsins.“

Frestur til að leggja fram frumvörp verður enn fremur færður fram og verður gagnrýni ofangreindra þingmanna því e.t.v. að einhverju leyti svarað. „Það er full þörf á að hafa annan hátt á en er í dag. Framkvæmdavaldið hefur haft þann leiða ávana að draga fram eftir öllum vetri að leggja fram mál, sem gerir það að verkum að vinnulagið verður afleitt á þinginu.“ Með því að færa frestinn fram fái þingmenn því meiri tíma til að kynna sér málin og það skili sér í betur ígrundaðri vinnu.

Ásta gerir ráð fyrir að frumvarpið taki breytingum í meðförum þingsins og ætlar hún að leggja til að tillögur í frumvarpi sem Sif Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, lagði fram um málþóf á síðasta degi þings verði einnig skoðaðar í þesssari vinnu, auk annarra hugmynda um breytingar á þingsköpum sem þingmenn telja ástæður til að fjalla um. „Við ætlum að ræða þetta frumvarp ítarlega á sumarfundi forsætisnefndar í ágúst og í framhaldi af því vona ég að þingflokkar fari yfir frumvarpið. Mér finnst mikilvægt að við náum sem breiðustu samkomulagi um þessar breytingar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert