Færri stofnanir voru með verulegan uppsafnaðan halla í árslok 2009 en á sama tíma undanfarin ár. Í árslok 2009 var 21 stofnun með uppsafnaðan halla umfram 4% af fjárheimild ársins sem er viðmið reglugerðar um framkvæmd fjárlaga. Undanfarin ár hefur fjöldinn verið á bilinu 50–70, samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar.
Af stofnunum með uppsafnaðan halla í árslok 2009 voru 16 reknar umfram heimildir á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2010. Stofnanirnar sem um ræðir eru: Landbúnaðarháskóli Íslands, Hólaskóli, Námsmatsstofnun, Fjölbrautarskólinn í Breiðholti, Flensborgarskóli, Fjölbrautarskóli Vesturlands, Fjölbrautarskóli Snæfellinga, Þjóðskjalasafn, Listasafn Íslands, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, Útlendingastofnun, Landspítalinn, Rjóður, hvíldarheimili fyrir börn, Lyfjastofnun og Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins.
Nokkur hluti þeirra var rekinn innan áætlana á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2010 en hafa ber í huga að samþykktar áætlanir nokkurra þeirra rúmast ekki innan fjárheimilda.
Rekstraráætlanir þriggja stofnana, fyrir árið 2010, hafa enn ekki verið samþykktar og að auki eru áætlanir tveggja enn óskráðar í bókhaldskerfi ríkisins. Sú staða er ólíðandi að mati Ríkisendurskoðunar. Langflestar þeirra stofnana sem stóðu með halla í árslok 2009 hafa verið í þeirri stöðu svo árum skiptir. Áríðandi er að tekið verði á rekstrarvanda þeirra í eitt skipti fyrir öll.
Skýrsla ríkisendurskoðunar í heild